Þegar breski leikstjórinn Sir Sam Mendes tók ákvörðun um að ráðast í það þrekvirki að segja sögu sjálfra Bítlanna á hvíta tjaldinu gerði hann sér fljótt grein fyrir því að ein mynd myndi ekki duga til að gera efninu skil og hvorki heldur tvær né þrjár. Myndirnar verða því fjórar – ein út frá sjónarhóli hvers og eins Bítils.
Sir Sam kynnti þessi áform sín með pomp og prakt í Las Vegas í vikunni ásamt leikurunum fjórum sem fara munu með hlutverk Bítlanna. Þeir eru Harris Dickinson sem leika mun John Lennon, Paul Mescal sem túlka mun nafna sinn McCartney, Joseph Quinn sem fer í föt George Harrisons og Barry Keoghan sem mun fara með hlutverk Ringos Starrs.
„Hver og ein mynd verður sögð út frá sjónarhorni eins af gæjunum,“ tjáði Sir Sam fjölmiðlum. „Þær skarast stundum en á mismunandi vegu og stundum ekki. Þeir eru fjórar gjörólíkar manneskjur. Ef til vill er þetta tækifæri til að skilja þá aðeins betur á dýptina. En sem ein heild munu allar myndirnar fjórar segja sögu merkustu hljómsveitar sögunnar.“
Leikstjórinn kveðst einnig hafa íhugað að leggja upp með smáseríu fyrir sjónvarp en ekki fundist það ganga upp. Þess vegna fer verkið á stóra tjaldið. Þar sem það auðvitað á best heima.
Sir Sam gefur sér drjúgan tíma í verkið en fyrirhugað er að frumsýna myndirnar, hverja á eftir annarri, í apríl 2028. Góður tími gefst því til að dusta rykið af gamla Bítlavínilnum, komi þessar upplýsingar flatt upp á einhverja.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn freista þess að segja sögu Bítlanna í leiknum myndum. Í því sambandi má nefna Backbeat, Nowhere Boy og I Wanna Hold Your Hand en eftirlifandi Bítlar og dánarbú hinna hafa ekki í annan tíma lagt blessun sína yfir verkefnið, bæði hvað varðar söguna og notkun á Bítlakatalógnum.
Sir Sam talar um verkefnið sem „fyrsta hámhorfsbíóið“. „Satt best að segja þurfum við að bjóða upp á meiri háttar bíóupplifun til að draga fólk út úr húsi,“ sagði hann.
Nánar er fjallað um myndirnar og leikarana í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.