White Lotus-stjarnan Aime Lou Wood, óskar þess að fólk hætti að tala um tennurnar á henni. Breska leikkonan hefur vakið mikla athygli sem Chelsea í 3. þáttaröð myrku gamanþáttanna White Lotus. Hins vegar hafa hæfileikar hennar ekki einungis vakið athygli aðdáenda þáttanna heldur einnig tanngarðurinn.
Um helgina birtist viðtal við Wood í Sunday Times þar sem hún m.a. kom inn á umræðuna um tennurnar. „Ókei, þetta er flott, en nú vil ég hætta að tala um það.“
Hún sagðist óska þess að svara spurningum um leikferilinn eða persónuna sem hún leikur í þáttunum. „Það er eins og að nú sé ég einungis par af framtönnum.“
Þrátt fyrir að aðallega séu sagðir jákvæðir hlutir um bros Wood þá er hún enn að venjast því að útlit hennar sé heitt umræðuefni. Þá sagði hún einnig í viðtalinu að auðvitað sé það jákvætt að tennurnar, sem á hennar yngri árum voru tilefni til eineltis, séu núna eitthvað sem fólk sé að missa sig yfir.
„Þetta er eini hluturinn sem skilgreinir mig.“
Hún bætti við að myndbönd með auglýsingum um tannréttingar komi reglulega upp á Instagram hjá henni.
Wood sagði áður í viðtali við On Demand Entertainment í febrúar að hún héldi að hún fengi aldrei hlutverk í Hollywood vegna tannanna í sér. Svo virðist sem Bandaríkjamenn séu bara að elska þær.