Skoska söngkonan Susan Boyle, sem sló í gegn í hæfileikakeppninni Britain’s Got Talent árið 2009, gladdi aðdáendur sína um heim allan þegar hún sneri aftur á samfélagsmiðla eftir langt hlé nú á dögunum.
Boyle, sem hefur að mestu haldið sig frá sviðsljósinu síðustu ár, eða frá því hún fékk vægt heilablóðfall í apríl 2022, birti þrjár færslur í tilefni af 64 ára afmæli sínu, en söngkonan varð árinu eldri þann 1. apríl síðastliðinn, og þakkaði fyrir afmæliskveðjurnar.
Söngkonan sagðist einnig vera komin á fullt að undirbúa ný og spennandi verkefni.
Boyle varð heimsfræg á einni nóttu þegar hún flutti lagið I Dreamed a Dream úr söngleiknum Les Misérables á sviði bresku hæfileikakeppninnar.