Átök virðast vera komin upp innan framleiðsluteymis þáttanna White Lotus, sem hafa notið mikilla vinsælda upp á síðkastið. Tónskáld þáttanna hefur sagst ætla að yfirgefa þættina vegna eitraðs sambands en Mike White, höfundur þáttanna, sakar tónskáldið um vanvirðingu í sinn garð.
Cristóbal Tapia de Veer, tónskáld White Lotus, hefur notið mikilla vinsælda fyrir tónverk sín í þáttunum en þema-lag þáttanna er spilað í upphafi hvers þáttar og er það talið vera eitt af helstu einkennum þeirra.
Veer er sá aðili innan framleiðsluteymis White Lotus sem hefur hlotið flestar tilnefningar fyrir störf sín. Meðal annars hefur hann hlotið þrjú Emmy-verðlaun.
Í viðtali við The Times kveðst Veer ekki ætla að snúa aftur fyrir seríu fjögur, en þegar hefur verið tilkynnt að hún verði gerð. Hann segir að hann geti ekki lengur starfað með White vegna „eitraðs sambands“ þeirra.
„Ég veit ekki hvað gerðist, nema nú er ég að lesa viðtöl því hann hefur ákveðið að fara í einhverja herferð um að yfirgefa þættina. Ég held hann hafi ekki borið virðingu fyrir mér,“ sagði White út í ákvörðun Veer um að yfirgefa þáttinn.
Hann segir að þeim hafi stundum greint á um listfræðilega nálgun við gerð tónlistarinnar.
Í viðtali Veer við Times segir hann að hann hafi haft ólíkar hugmyndir um hvernig tónlistin ætti að hljóma frá fyrstu seríunni en að sá ágreiningur hafi ágerst við gerð þriðju seríunnar.
„Fyrir einhvern sem hefur séð önnur verk eftir mig er þetta ekki minn tebolli,“ sagði Veer.
White er allt annað en sáttur með ákvörðun Veer.
„Ég hef aldrei sleikt neinn jafn mikið upp – til að leiða þann hest að vatninu. Skemmtu þér með það sem þú ætlar að gera næst,“ sagði White.