Það er engin lognmolla í kringum tónlistarmanninn Patrik Atlason, Prettyboitjokko, þessa dagana. Ekki nóg með að hann hafi gefið út nýtt lag á dögunum, Sykurpabbi, heldur tók hann „sykurpabbann“ enn lengra og splæsti í málverk handa afa sínum, Helga Vilhjálmssyni.
Um er að ræða olíuverk eftir götulistamanninn Stefán Óla Baldursson, sem er hvað þekktastur fyrir veggmyndir (mural) sem hann hefur málað vítt og breitt um Ísland.
Myndin á verkinu er af Helga sjálfum þar sem hann situr reffilegur á svartri rafskutlu og tyllir annarri hendi á mjöðm. Öll smáatriði í verkinu eru upp á tíu.
Spurður út í gjöfina segist Patrik aldrei hafa gefið afa sínum neitt og langaði að gera eitthvað mjög sérstakt fyrir hann, en Helgi varð einmitt 83 ára 8. febrúar.
Þegar Patrik er inntur eftir hvort þetta geri hann að uppáhaldsbarnabarninu hlær hann og segir að nú sé hann eflaust efstur á lista. „En við [barnabörnin] flökkum upp og niður listann, svo það er aldrei að vita hvað ég helst lengi á toppnum,“ bætir hann við.