Leikarinn og spjallþáttastjórnandinn Mark Consuelos fer með aðalhlutverk í nýrri auglýsingaherferð bandaríska skó- og fylgihlutamerkisins Stuart Weitzman.
Consuelos, 54 ára, klæddi sig úr öllu nema sokkunum og skónum fyrir tökuna og leyfði grjóthörðum magavöðvum sínum að njóta sín, enda eiga þeir skilið alla heimsins athygli.
Consuelos, sem var kynntur sem fyrsti alþjóðlegi „ambassador“ skó- og fylgihlutamerkisins í nóvember, deildi tveimur myndum úr tökunni á Instagram-síðu sinni í gærdag og ef marka má athugasemdir þá slógu þær heldur betur í gegn hjá fylgjendum sjónvarpsmannsins.
Á myndunum, sem tískuljósmyndarinn Ned Rogers á heiðurinn af, situr Consuelos nakinn á stól, skælbrosandi og klæddur hvítum íþróttasokkum og skóm frá Stuart Weitzman, en það má segja að skórnir séu það síðasta sem fólk tekur eftir þar sem augað leitar annað.
Consuelos stýrir morgunþættinum Live with Kelly and Mark ásamt eiginkonu sinni, Kelly Ripa.
Hjónin hafa verið gift frá árinu 1996 og eiga þrjú uppkomin börn, Michael, Lola og Joaquin.