Hertoginn af Sussex, Harry Bretaprins, var fyrir dómstólum í Lundúnum í dag vegna lögsóknar sinnar gegn ákvörðun stjórnvalda um að dregið yrði úr öryggisgæslu fyrir hann þegar hann ferðast til Bretlands. Þetta kemur fram á AFP.
Í kjölfar aðskilnaðar Harrys frá konungsfjölskyldunni árið 2020 og flutninga hans með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna gáfu yfirvöld það út að hann nyti ekki lengur sömu verndar þegar hann dveldi í Bretlandi.
Harry höfðaði mál gegn innanríkisráðuneytinu en því var hafnað í fyrra og hefur málið nú verið lagt fyrir áfrýjunardómstól.
Harry og eiginkona hans, hertogaynjan af Sussex, Meghan Markle, teljast ekki lengur til starfandi meðlima konungsfjölskyldunnar eftir að þau fluttu frá Bretlandi og settust að í Kaliforníu. Prinsinn segir minni öryggisgæslu hafa hamlað honum að heimsækja heimaland sitt.
Breska innanríkisráðuneytið tók þessa ákvörðun og hefur hæstiréttur landsins sagt ákvörðunina hafa komið í kjölfar breytinga á stöðu Harrys innan konungsfjölskyldunnar. Prinsinum var gert að greiða allan málskostnað, um milljón punda, eftir að málinu var hafnað í apríl 2024.
Það gustar af Harry þessa dagana, en auk þess að hafa átt í deilum við bresk dagblöð er hann einnig flæktur í deilu innan góðgerðarsamtakanna Senteable í suðurhluta Afríku, sem hann stofnaði.
Hann hefur sagt af sér sem verndari samtakanna. Formaður Senteable, Sophie Chandauka, hefur sakað prinsinn um „einelti“ og að taka þátt í „yfirhylmingu“. Harry hefur þó neitað þeim ásökunum.