Breska raunveruleikastjarnan Molly-Mae Hague, sem gerði garðinn frægan í þáttaseríunni Love Island sumarið 2019, hefur hagnast gríðarlega síðustu ár, þá sérstaklega af samfélagsmiðlum, og á orðið dágóða summu inni á bankabók.
Hague, sem er aðeins 25 ára gömul, er nú metin á sex milljónir sterlingspunda, jafnvirði um eins milljarðs íslenskra króna, en samfélagsmiðla- og raunveruleikastjarnan getur þénað allt að 20.000 sterlingspund, sem nemur rúmum þremur milljónum króna, fyrir eina færslu á Instagram, enda státar hún af milljónum fylgjenda á samfélagsmiðlinum.
Hague hefur nýtt sér frægð sína til að byggja upp hálfgert viðskiptaveldi, en hún setti á laggirnar eigið tískumerki á síðasta ári eftir að hafa starfað sem svokallaður „ambassador“ fyrir þó nokkur þekkt fyrirtæki, þar á meðal tískumerkið PrettyLittleThing, sem borgaði henni miklar fúlgur fjár fyrir kynningar á samfélagsmiðlum.
Raunveruleikastjarnan gaf einnig út ævisögu sína, Becoming Molly-Mae: Finding Happiness in an Online/Offline World, sem seldist í þúsundum eintaka, og heimildaþættina Behind It All þar sem hún varpar ljósi á atburðarásina sem leiddi til sambandslita hennar við hnefaleikakappann Tommy Fury, sem hún var í sambandi með í fimm ár.
The Sunday Times útnefndi Hague sem einn af áhrifamestu einstaklingum undir þrítugu í Bretlandi nýverið, enda fáir jafn valdamiklir á samfélagsmiðlum um þessar mundir.