Leikarinn Adam Mondschein, sem leikur á móti Blake Lively í einni senu í kvikmyndinni It Ends With Us, heldur því fram að leikkonan hafi rangtúlkað senuna, miðað við þau gögn sem koma fram í málsókn hennar á hendur Justin Baldoni, leikara og leikstjóra myndarinnar.
Hann segir reynslu sína af að vinna með Lively allt aðra en þá sem hún virðist hafa upplifað, en hún ku hafa minnst á Mondschein í málsókninni.
Í gögnunum kemur fram að Lively saki Baldoni um að hafa „truflað“ sig á tökustað með geðþóttaákvörðunum og „nýjum atriðum“, eins og t.d. að ráða góðan vin sinn, Mondschein, til að fara með hlutverk fæðinga- og kvensjúkdómalæknis í mjög svo nánu atriði með Liveley, þar sem hann hafði andlit og hendur í nálægð við hennar heilagasta stað í fæðingaratriði myndarinnar.
Mondschein hefur svarað ásökunum Lively og segir hana m.a. hafa klæðst sjúkrahússlopp, stuttbuxum og bol í atriðinu, fyrir utan það sem hún valdi sjálf að klæðast.
Hann heldur því einnig fram að leikkonan hafi aldrei kvartað eða lýst vanlíðan á neinum tímapunkti, vegna þess að ekkert óvenjulegt átti sér í raun stað og að allt hafi verið mjög fagmannlegt.
Fulltrúi Lively hefur bent á fullyrðingar leikkonunnar þar sem hún lýsir tökustað sem óreiðukenndum, fjölmennum og að algjörlega hafi skort á alla vernd fyrir töku á nektarsenu.
„Ef ég verð kallaður til að bera vitni fyrir réttarhöldum mun ég svara sannleikanum samkvæmt, af fúsum og frjálsum vilja, um hvað sem beðið er um frá mér, með allri þeirri lagalegu vernd sem veitt er,“ segir Mondschein.