Breska hljómsveitin Remember Monday, sem keppir fyrir hönd Bretlands í Eurovision-söngvakeppninni í ár, er á leið til Húsavíkur til að taka upp sína eigin útgáfu af laginu Húsavík (My Hometown).
Húsavík komst heldur betur á kortið í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga (2020) í leikstjórn David Dopkin.
Forsagan er sú að keppendum í Eurovision stendur til boða að taka ábreiðu af lagi að eigin vali, sem verður birt á opinberum miðlum keppninnar. Remember Monday valdi lagið Húsavík og óskuðu liðsmenn sveitarinnar eftir því að fá að taka lagið upp í bænum, ásamt barnakórnum sem kom fram á Óskarsverðlaununum árið 2021.
„Það hefur lengi verið draumur okkar að heimsækja Húsavík,“ er haft eftir þeim Lauren Byrne, Holly Hull og Charlotte Steele, liðsmönnum hljómsveitarinnar, í tilkynningu.
„Síðan Eurovision-myndin kom út hefur okkur dreymt um að koma þangað og nú hefur keppnin sjálf gefið okkur tækifæri til að láta þann draum rætast. Við erum í skýjunum yfir því að fá að syngja með þessum ótrúlega stúlknakór frá Húsavík.“
Verkefnið er unnið af Film Húsavík og Castor miðlun fyrir BBC í leikstjórn Rafnars Orra Gunnarssonar og munu tökur fara fram um borð í bátnum Sylvíu við Húsavíkurhöfn.