Söngkonan og fyrrverandi meðlimur Spice Girls, Melanie Brown eða Melanie B., fagnar tímamótum með fjölskyldu sinni. Angel, sonur hennar og leikarans Eddie Murphy, er nýorðinn 18 ára.
Af tilefninu setti Melanie færslu á Instagram-síðu sína tileinkaða Angel með orðunum: „Til hamingju með afmælið engillinn minn! Ég trúi ekki að þú sért 18 ára, þú ert svo sérstakur og hæfileikaríkur.“
Angel er miðjubarn Melanie en hún eignaðist hann eftir stutt samband með Murphie árið 2006. Lengi vel gekkst Murphy ekki við að vera faðir barnsins, jafnvel þótt búið væri að sýna fram á faðernið með prófunum. Angel sem fæddist í líkama stúlku skilgreinir sig nú í karlkyni.
Fyrir átti Melanie Phoenix, sem er í dag 26 ára, með fyrrverandi kærasta sínum, dansaranum Jimmy Gulzar. Örverpið er Madison en hún er 13 ára og hún á hana með fyrrverandi eiginmanni sínum, leikstjóranum Stephen Belafonte.
Í færslunni skrifaði Melanie einnig: „Ég gæti ekki verið stoltari af því að fylgjast með þér vaxa og verða sú manneskja sem þú ert, en þú munt alltaf verða barnið mitt, ég vona að þú haldir áfram að elta drauma þína og vertu góður við alla í kringum þig eins og þú hefur alltaf verið engillinn minn, elska þig alltaf.“