Samfélagsmiðlastjarnan Kayla Malecc hefur vakið mikla athygli eftir að hún steig fram og lýsti ofbeldi sem hún segist hafa sætt í nánu sambandi síðasta árið. Malecc, sem er með fjölda fylgjenda á Instagram og TikTok, birti bæði myndefni og ítarlega frásögn á samfélagsmiðlum þar sem hún sakar fyrrverandi kærasta sinn, Evan Johnson, um alvarlega líkamsárás og andlegt ofbeldi.
Malecc segir í tveggja klukkutíma löngu myndbandi á YouTube að sambandið hafi hafist í maí 2024, þegar hún var nýflutt til Kaliforníu. Þar kynntist hún Johnson í gegnum sameiginlega vini. Hún lýsir því hvernig hann hafi farið í fangelsi í 22 daga skömmu eftir að þau kynntust, og að líf hennar hafi tekið stakkaskiptum eftir það.
Í myndbandinu fullyrðir Malecc að Johnson hafi beitt hana bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hún lýsir því meðal annars að áfengisneysla af hálfu Johnson hafi verið orðin mikil, og að Johnson hafi sýnt fram á hættulega hegðun sem hófst á því að brjóta hluti, en endaði svo með því að hann veittist að henni.
Malecc tók bæði myndir og myndband þegar ágreiningur á milli þeirra stóð og birti í YouTube-myndbandinu hennar og TikTok. Í einu þeirra heyrist hún segja við Johnson:
„Þú ert að brjóta kjálkann minn.“ Hún segist hafa upplifað mikið óöryggi á þessum tíma og afsakað hegðun hans, meðal annars af ótta við að ögra honum enn frekar.
Eftir að Malecc birti frásögn sína dreifðist málið hratt á samfélagsmiðlum og margir netverjar hvöttu hana til að leggja fram kæru. Þá hafa fjölmargir skrifað undir áskorun á netinu um að málið verði rannsakað af lögreglu. Í kjölfarið bárust fréttir um að Johnson hefði verið handtekinn 7. apríl sl. og settur í varðhald vegna ákæru um heimilisofbeldi og brot á skilorði. Tryggingagjald hans nam um 3.000 bandaríkjadölum (um 400.000 krónum). Johnson er ekki lengur í haldi.
Malecc segist hafa verið knúin til að stíga fram með sína sögu til að hvetja aðrar konur í svipaðri stöðu til að leita sér hjálpar. Hún ítrekar að hinn meinti gerandi hafi reynt að snúa málinu upp á hana, meðal annars með því að halda því fram að þau hafi verið jafnir gerendur. Malecc vísar því alfarið á bug og segist reiðubúin að vinna með lögreglu ef málið fer lengra inn í dómskerfið.
Í kjölfar opinberunarinnar hafa fjölmargir lýst yfir stuðningi við Malecc á samfélagsmiðlum. Enn sem komið er hefur Johnson ekki svarað frekar fyrir sig opinberlega um ásakanirnar, utan stuttra athugasemda í myndböndum sem birt hafa verið á TikTok. Lögregluathugun stendur yfir, en ekki liggur fyrir hvenær málið fer fyrir dómstóla.
Hægt er að sjá YouTube-myndbandið í heild sinni hér fyrir neðan:
Ef þú ert í ofbeldisfullu sambandi, telur þig eða einhver nákominn vera í hættu eða þarft á aðstoð að halda, er hægt að leita til eftirfarandi aðila:
Kvennaathvarfið (sími 561-1205): hjálp og stuðningur fyrir þolendur heimilisofbeldis.
Bjarkarhlíð (sími 553-3000): Stuðnings- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis.