„Við erum að flytja inn Akademie für Alte Musik Berlin, stundum kölluð Akamus, en það er stærsta bandið í þessari senu í Evrópu í dag og búið að vera það um nokkurt skeið. Þannig að það er rosalega spennandi að fá þau á hátíðina,“ segir Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, fiðluleikari og framkvæmdastjóri Reykjavík Early Music Festival, innt eftir því hvað beri hæst á hátíðinni sem nú verður haldin í annað sinn í Hörpu, dagana 14.-17. apríl.
Reykjavík Early Music Festival er fyrsta alþjóðlega barokkhátíðin í Reykjavík og er hún að sögn Guðbjargar einstakur vettvangur fyrir samstarf íslenskra og erlendra tónlistarhópa sem sérhæfa sig í upprunaflutningi barokktónlistar.
Tónleikagestir fái því að ferðast aftur í tímann þegar strengir hljóðfæranna voru úr kindagörnum og prikin í fiðlubogunum sveigðust í aðra átt eins og í málverkum barokktímans.
„Einnig fá Goldberg-tilbrigðin eftir Bach að hljóma á sembal í túlkun hins margverðlaunaða pólska semballeikara Marcins Swiatkiewicz, sem er rísandi stjarna í sínu heimalandi. Ég veit alla vega ekki til þess að Goldberg-tilbrigðin hafi hljómað áður á sembal í Hörpu,“ segir hún og bætir því við að alþjóðlegi kammerhópurinn Concerto Scirocco mæti einnig á hátíðina en þar sé á ferðinni hópur sem flakki mikið á milli landa og komi víða fram.
„Þau eru með rosalega skemmtilega framkomu og það er mikil orka í þeim en þau koma með alls konar skrýtin og skemmtileg blásturshljóðfæri með sér til landsins eins og sink, sackbut og barokkbásúnur.“
Í listrænu teymi hátíðarinnar, auk Guðbjargar, eru fiðluleikararnir Elfa Rún Kristinsdóttir og Gunnhildur Daðadóttir sem og sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir.
„Talandi um skrýtin og sérstök gömul hljóðfæri þá erum við með Gadus Morhua Ensemble á hátíðinni sem er íslensk hljómsveit, en nafn hennar þýðir þorskur á latínu, og þau spila meðal annars á forníslenskt langspil. Þau hafa oft verið að spila á rabarbaraflautur og alls konar áhugaverð hljóðfæri en þau eru þekkt fyrir að búa til hálfgert baðstofubarokk þar sem þau spila bæði barokktónlist frá meginlandi Evrópu og gamla íslenska þjóðlagatónlist í bland.“
Spurð í framhaldinu hvernig valið á flytjendunum hafi farið fram segir hún Elfu, listrænan stjórnanda hátíðarinnar, aðallega hafa komið að því.
„Elfa er búsett í Berlín og er gífurlega vel tengd inn í barokksenuna í Evrópu. Sjálf spilar hún um alla Evrópu og er dugleg að kynna sig og hátíðina hér heima. En svo er mjög mikilvægt líka að búa til sýnileika fyrir íslensku böndin og á næstu árum verður enn meiri áhersla lögð á Íslendinga á hátíðinni og þá sér í lagi Íslendinga sem búa erlendis.
Það er svo mikið af frábærum Íslendingum í þessari senu sem eru búsettir erlendis sem eru með einhver bönd á sínum snærum,“ segir Guðbjörg og nefnir sem dæmi tónlistarmanninn Halldór Bjarka sem mætti á hátíðina í fyrra ásamt hljómsveit sinni Amaconsort.
Viðtalið í heild sinni birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins í gær, fimmtudaginn 10. apríl.