„Ég komst að því í náminu að mitt áhugasvið væri að skapa karakterinn,“ segir Júlíanna Lára Steingrímsdóttir en hún lærði kvikmyndaleikstjórn í Central Saint Martins í London, þaðan sem hún útskrifaðist 2010.
Síðan þá hefur hún starfað við búninga- og leikmyndahönnun bæði í leikhúsi og kvikmyndum og nú síðast í nýrri þáttaseríu, Reykjavík Fusion, sem verður sýnd á Sjónvarpi Símans Premium í haust.
Þáttaserían gerist í nútímanum og segir í lýsingunni að hún fjalli um matreiðslumeistara (Ólaf Darra Ólafsson) sem kemur úr fangelsi og neyðist til að slá lán hjá undirheimakóngi til að stofna flottasta veitingastað Reykjavíkur. Hera Hilmar leikur rekstrarstjóra veitingastaðarins (Marý) sem nýtir sér einfeldni matreiðslumeistarans til að vinna að eigin hagsmunum. Saman sökkva þau dýpra og dýpra í vef glæpa í undirheimum Reykjavíkur þar sem hvert rangt spor getur reynst dýrkeypt.
Vinnuna við þættina segir Júlíanna hafa verið einkar skemmtilega. „Mér finnst mest áhugavert að skapa umhverfi persóna og baksögu. Ég vil kafa aðeins dýpra í karakterinn,“ útskýrir hún.
„Þótt karakterarnir þurfi að vera trúverðugir þá fékk ég leyfi til að skrúfa aðeins upp í fantasíunni í stað þess að vera í algjörum „realisma“, en það gefur mér svigrúm til að vera aðeins ýktari í persónusköpuninni,“ segir Júlíanna.
„Í þáttunum er t.d. mikið af glæpamönnum sem eru ansi skemmtilegir karakterar að vinna með. Við erum með þessa gamalgrónu glæpamenn og svo aftur þessa nýju sem eru að hasla sér völl í glæpaheiminum og þurfum strax að sjá hvorum hópnum hver glæpamaður tilheyrir.“
Hún lýsir því hvernig námið sem hún stundaði gefi henni öðruvísi sýn á verkefnin heldur en hjá þeim sem lærðu t.d. hönnun. „Ég pæli mikið í lýsingum, ramma og efnavali, hvað kemur vel út í „kameru“, sem er kannski aðeins öðruvísi nálgun í búningahönnun.“
Hvaðan færðu hugmyndir?
„Aðallega í umhverfinu. Ég elska að fylgjast með fólki og ímynda mér þeirra sögu. Ég laumast jafnvel stundum til að taka mynd af áhugaverðum karakterum fyrir hugmyndabankann minn.“
Eftir að hafa fullmótað karakterana byrjaði Júlíana að dýfa sér í hugmyndir að flíkum. „Þá var bara að byrja að leita, fara í „second hand“-búðir og finna flíkur í búningasöfnum og á netinu. Það er takmarkað úrval á litla Íslandi svo í þessu tilfelli sendi ég einnig „reffa“ á Agnieszku vinkonu mína sem er búsett í Póllandi sem fór á stúfana þar, fór á markaði og sendir mér myndir af flíkum sem hún fann.“
„Það er hrikalega gaman að vinna með Heru og skemmtilegt að búa hennar karakter til. Hera var til í allt. Þrátt fyrir að við vorum báðar með okkar hugmyndir að hennar karakter þá mættumst á miðri leið í hugmyndavinnunni og útkoman varð enn áhugaverðari.“
Júlíanna lýsir því hve spennandi hafi verið að kafa djúpt í karakterinn sem Hera leikur í þáttunum, Marý, og að saman, ásamt gervihönnuðinum Guðbjörgu Huldísi, hafi þær skáldað mikla baksögu Marýjar, til að skilja hana. Sú vinna rataði síðan að einhverju leyti inn í þættina.
Spurð út í útlit Marýjar segist Júlíanna ekki alveg geta tengt hana við aðra persónu. Hún hafi þó sótt upprunalegu hugmyndina til persónunnar Mörlu í kvikmyndinni Fight Club (1999).
„Þær eru alls ekki svipað klæddar. Hins vegar er Marla sterkur karakter sem fólk óttast, þrátt fyrir að vera smávaxin. Ég velti upp þeirri spurningu hvernig ég gæti látið sterkan karlmann, eins og Ólaf Darra, vera hræddan við konu eins og Heru, eða Marý. Niðurstaðan var þessi óútreiknanleiki og að Marý þyrfti að vera óútreiknanleg í útliti. Þú veist ekki hvar þú hefur hana eða hvað hún gerir næst.“
Að lokum segir Júlíanna að verkefnið hafi verið ánægjulegt að því leyti að henni var sýnt mikið traust og gefið frelsi til að túlka persónurnar. Svo kom það henni á óvart að þrátt fyrir þungt viðfangsefni að þá eru þættirnir stútfullir af svörtum húmor.
„Þetta er allt annað en maður hefur séð.“