Þau Ágústa Eva Erlendsdóttir og Gunnar Hilmarsson, oft kallaður Gunni Hilmars, í hljómsveitinni Sycamore Tree gefa út tvö lög til viðbótar af plötunni þeirra Scream sem kemur út 30. maí. Þetta eru lögin Time Will Tell og Heart is God. Lögin og textarnir eru eftir Gunnar og Ágústu Evu og sem fyrr útsetur Arnar Guðjónsson bæði lögin.
„Á þessari plötu höfum við verið að leika okkur að því að útvíkka Sycamore Tree-hljóðheiminn og með þessum tveimur lögum þá má heyra bæði kunnuglegan hljóðheim okkar í Time Will Tell og svo nýja hlið á okkur í laginu Heart Is God þar sem að meiri elektrónískur heimur sameinast okkar kunnuglega hljóðheimi á spennandi hátt, þar sem syngjandi gítarar mætast við englaraddakór Ágústu Evu. Alveg epísk sameining á sinn hátt,“ segir Gunnar Hilmars í fréttatilkynningu.
Time Will Tell fjallar um djúpa og órofna ást, tryggð og það að styðja og vera til staðar fyrir einhvern, sama hvað á dynur. Sögumaðurinn lýsir því hvernig hann/hún mun gera allt til að vernda og lyfta ástvini sínum upp, jafnvel í erfiðustu aðstæðum.
Heart Is God er vísun í það að guð innan í okkur er í raun hjartað okkar og innsæið okkar sem við þurfum að hlusta á og treysta.