„Það eru svikin sem eru verst. Þú horfir í augun á fólki sem telur sig hafa keypt góðan Kjarval og er ánægt með verkið en einhver hefur bent því á að láta athuga betur málið, eitthvað sé vafasamt,“ segir Ólafur Ingi Jónsson, forvörður hjá Listasafni Íslands, en í dag verður opnuð þar sýningin Ráðgátan um rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir en Ólafur Ingi og Dagný Heiðdal listfræðingur eru sýningarstjórar.
Þegar blaðamann bar að garði voru þau á lokametrunum við uppsetningu sýningarinnar en þar má sjá fölsuð verk sem safnið á í fórum sínum og hafa borist því á ýmsan máta. Öll tengjast þau hinu svonefnda stóra málverkafölsunarmáli sem hófst á síðasta tug 20. aldar og lauk með dómi í Hæstarétti árið 2004 þar sem hinir ákærðu voru sýknaðir vegna ágalla á rannsókn málsins. Málið hafði þó neikvæð áhrif á íslenskan listheim og hætt er við að sagan gleymist og fölsuð verk komist aftur í umferð.
Flestir af þekktustu listamönnum Íslands á fyrri hluta 20. aldar hafa orðið fyrir barðinu á fölsurum en á sýningunni eru dæmi um verk fjögurra listamanna sem hafa hvað mest verið falsaðir, en það eru Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Nína Tryggvadóttir og Svavar Guðnason.
Nánar er rætt við Ólaf Inga og Dagnýju í Morgunblaðinu í dag, laugardag 11. apríl.