Fyrstu tvær seríurnar af The White Lotus, eða Hvíta lótusnum, voru dúndurgóðar, um það ber flestum saman sem á annað borð hafa fyrir því að líta upp úr snjalltækjunum og kveikja á gamla, góða sjónvarpinu. Framvindan var sannarlega seigfljótandi en undir niðri kraumaði spenna sem vont var að víkja sér undan. Maður varð að sjá meira. Hvernig endar þetta eiginlega?
Ýmsar persónur eru líka eftirminnilegar, engin þó eins og hin taugaveiklaða og örvæntingarfulla Tanya McQuoid sem Jennifer Coolidge negldi upp á fulla 10. Enda dugði hún í gegnum báðar seríunnar, ein persónanna. Týpa sem hefði sómt sér vel í Aðþrengdum eiginkonum, Shameless eða öðrum slíkum úrvalsseríum, þar sem sýrustigið var skrúfað hressilega upp. Tanya var mörgum harmdauði við lok annarrar seríu. „Nú er þetta búið. Þessir þættir ná aldrei að halda dampi eftir þetta,“ varð ýmsum að orði.
Og höfðu rétt fyrir sér, alltént var þriðja serían, sem rann sitt skeið á enda í vikunni, hvorki fugl né fiskur, samanborið við þær fyrri. Þetta virðist vera samdóma álit margra skjáskýrenda, þegar maður skannar erlendu pressuna. Og Lesbókin er um borð í þeim vagni.
Ekkert vantaði upp á umgjörðina í Taílandi, náttúrufergurð, ró og friður, fyrir utan einn og einn önugan og öskrandi apakött í trjánum. Þarna gæti hver maður hugsað sér að hvíla lúin bein og hefja æsilega leit að kjarnanum í sjálfum sér gegnum núvitund og önnur brúkleg tæki og tól.
Tónlistin er líka snilldin ein og ábyggilega það besta sem gert hefur verið í sjónvarpsþáttum af þessu tagi, kyndug og á köflum mun ágengari en persónurnar sjálfar. Raunar er með góðri samvisku hægt að tala um tónlistina sem sjálfstæðan karakter í verkinu. Alltént kem ég til með að muna best eftir henni þegar frá líður – henni og Tönyu.
Auðvitað getur verið gott að drepa gamlar persónur og gefa ungum og ferskari tækifæri en þær þurfa þá að standa undir því. Og það gerði hópurinn sem safnað var saman í Taílandi ekki – og var óralangt frá því. Maður saknaði Tönyu meira og meira með hverjum þættinum.
Tengingin við fyrstu seríuna var kona að nafni Belinda Lindsey en sjálfur áttaði ég mig ekki á því fyrr en ég las um það í útlensku blaði. Mundi ekkert eftir henni. Það segir sína sögu. Alls ekki spennandi persóna þar á ferð. Belinda er engin Tanya. Greg Hunt snýr líka aftur úr annarri seríu undir dulnefninu Gary. Ég mundi eftir honum. Hann hefur þó litlu öðru hlutverki að gegna í þriðju seríunni en að sitja og sötra viskí, auk þess sem hann hvetur unga ástkonu sína til að draga menn á tálar og freista þess að ná þeim heim í svefnherbergi. Svo hann sjálfur geti horft á. Kallast slíkir menn ekki bara perrar á góðri íslensku? Án þess að maður eigi að dæma ástalíf annarra.
Nýju persónurnar voru flestar ekki bara flatar, heldur beinlínis leiðinlegar. Tökum Ratliff-fjölskylduna sem dæmi. Mynduð þið ekki frekar hlaupa í ískaldan sjóinn en að bjóða þeim í mat? Það er helst að yngri syninum sé viðbjargandi. Leikinn af Sam Nivola. Patrick Arnoldssyni Schwarzenegger tókst að gera eldri bróðurinn alveg ofboðslega fráhrindandi og fær plús fyrir það. En leiðinlegur er hann, það er karakterinn. Þekki ekki Patrick. Og mæðgurnar. Jesús, María og Jósep! Pabbinn gerði tilraun til að koma þeim öllum fyrir kattarnef en guggnaði á því. Því miður. Má maður ekki annars segja svona? Jú, jú, þetta eru bara persónur í leiknu verki.
Annað var eftir þessu. Vinkonurnar þrjár, þessi fræga og hinar tvær öfundsjúku, voru klisjan ein og ofboðslega óáhugaverðar. Hversu oft varð ykkur litið á klukkuna meðan þær voru að mala sín á milli?
Hver fleiri voru þarna. Jú, bugaði maðurinn með pabbakomplexana. Hversu oft höfum við séð þá týpu á skjánum? Og allt fór eins og útlit var fyrir; hann drap manninn sem átti að hafa drepið föður hans en var svo sjálfur í reynd faðir hans. Hver sá það ekki fyrir? Að vísu var villt um fyrir okkur um stund. Bugaði maðurinn hvarf frá áformum sínum til að byrja með en lét svo af þessu verða í máttlausu lokaatriði, þar sem gamli góði aulahrollurinn skaut hreinlega upp kollinum. Ætla menn virkilega að enda þetta svona?
Hin unga ástkona bugaða mannsins var að vísu viðfelldin persóna, tók gleðina og lífið allan daginn fram yfir eymdina og dauðann. Og hvað var þá gert við hana? Jú, hún var auðvitað drepin. Þá leið manni eins og maður væri að borða sex daga gamlan velling sem gleymst hefur í ísskápnum, bara í því skyni að koma í veg fyrir matarsóun. Leikkonan, Aimee Lou Wood, vakti athygli en af einhverjum ástæðum sá fólk ástæðu til að ræða frekar um tanngarð hennar en leikhæfileika. Vonandi slær það hana ekki út af laginu. Frekar en Freddie Mercury forðum. Og nei, Wood er ekki dóttir hans. Fæddist 1994, þegar stórsöngvarinn var búinn að liggja í hálft þriðja ár í gröf sinni.
Taílensku turtildúfurnar, Gaitok og Mook, voru álíka spennandi og sóknarleikur Southampton í ensku úrvalsdeildinni á þessum vetri. Mook fær þó svert hrós fyrir nafnið. Það er afbragðsgott.
Ein persóna var þó með lífsmarki í þessari þriðju seríu Lótussins, Frank, vinur bugaða mannsins, leikinn af Sam Rockwell. Hann fékk ekki margar mínútur en blóðmjólkaði þær. Senan þar sem hann lýsir því fyrir bugaða manninum hvað hann gerði til að refsa sér fyrir að sofa hjá of mörgum konum var rosaleg. Og innihald hennar verður ekki haft eftir hér. Morgunblaðið er fjölskyldublað.
Ætli við fáum seríu númer fjögur?
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.