Bandaríska raunveruleikastjarnan Kim Kardashian mun bera vitni í dómsal í væntanlegum réttarhöldum vegna vopnaðs ráns á hóteli hennar þar sem skartgripum hennar var rænt árið 2016.
Þetta segir lögmaður hennar, Michael Rhodes. Réttarhöldin hefjast 28. apríl og er áætlað að þau standi yfir til 23. maí. Kim mun að öllum líkindum bera vitni 13. maí.
Réttað verður yfir sex einstaklingum sem taldir eru hafa staðið að ráninu.
Það var aðfaranótt 3. október árið 2016 sem sex menn, dulbúnir sem lögreglumenn, réðust inn á hótelherbergi Kim með það að markmiði að handsama af henni skartgripi.
Tveir árásarmannanna beindu byssu að höfði hennar og fyrirskipuðu henni að afhenda hring sem hún var með, sá var virði 30 þúsunda evra eða rúmlega fjórar milljónir íslenskra króna.
Mennirnir bundu saman hendur og fætur Kim, límdu fyrir munn hennar og komu henni fyrir í baðkari á meðan þeir rændu hótelherbergið.
Meirihluti þýfisins hefur aldrei fundist en lögreglan í Frakklandi greindi frá því skömmu eftir ránið að ránsfengurinn hefði verið metinn á 10 milljónir evra eða tæpan 1,3 milljarð í íslenskum krónum. Talið er að hluti þýfisins hafi verið seldur í Belgíu.