Bandaríski leikarinn og tónlistarmaðurinn Ronn Moss er Íslendingum vel kunnur, þá sérstaklega aðdáendum sápuóperunnar The Bold and the Beautiful, eða Glæstar vonir eins og hún heitir á íslensku.
Moss skaust fyrir alvöru upp á stjörnuhimininn árið 1987, þá 35 ára gamall, þegar hann hreppti hlutverk hins myndarlega Ridge Forrester, sonar Eric og Stephanie Forrester, í Glæstum vonum. Hann lék hlutverkið í 25 ár, eða allt þar til hann kvaddi karakterinn árið 2012 eftir 4.493 þætti.
Eftir að Moss hætti var enginn Ridge í þáttunum í tæpt ár en í desember 2013 kom nýr Ridge til skjalanna, leikinn af Thorsten Kaye, sem hefur túlkað hinn marggifta framkvæmdastjóra hjá Forrester Creations, alla daga síðan.
Moss er fæddur og uppalinn í Los Angeles, borg englanna og kvikmyndaiðnaðarins, þann 4. mars árið 1952.
Ellefu ára gamall hóf hann að læra á trommur, gítar og rafmagnsbassa og upp úr tvítugu stofnaði hann ásamt félögum sínum, Peter Beckett, J.C. Crowley og John Friesen, hljómsveitina Player, sem er hvað þekktust fyrir slagarann Baby Come Back frá árinu 1978, en lagið náði toppsæti bandaríska Billboard-listans.
Hlutverk Moss í Glæstum vonum er án efa þekktasta hlutverk hans á ferlinum, en alls ekki það eina, síður en svo.
Síðustu ár hefur Moss farið með þó nokkur hlutverk í svokölluðum b-myndum og lítt þekktari sápuóperum á borð við The Bay og Familie. Hann hefur þó aðallega einblínt á tónlistarferilinn og er iðinn við að deila myndskeiðum frá tónleikum sínum á samfélagsmiðlasíðunni Instagram.
Moss var kvæntur leikkonunni Shari Shattuck á árunum 1990 til 2002 og á með henni tvær uppkomnar dætur. Leikarinn gekk í hjónaband með fyrirsætunni Devin DeVasquez árið 2009 og eru þau búsett í Los Angeles.