Fyrrverandi leikkonan og barnastjarnan Amanda Bynes hefur stofnað aðgang að áskriftarsíðunni OnlyFans.
Bynes, sem skaust upp á stjörnuhimininn í unglingaþáttaröðinni All That árið 1996, ætlar ekki að deila efni af kynferðislegum toga heldur ætlar hún að nota aðganginn til að tengjast aðdáendum sínum betur og bjóða þeim að spjalla við sig í gegnum einkaskilaboð.
Bynes, 39 ára, greindi frá þessu í story á Instagram-síðu sinni í gær, þriðjudag.
„Ég ætla einungis að nota OnlyFans til að spjalla við aðdáendur mína í gegnum einkaskilaboð. Ég mun ekki birta klámfengið efni,“ skrifaði hún.
Bynes hvarf að mestu úr sviðsljósinu fyrir rúmum áratug síðan, en hún lék síðasta hlutverk sitt í kvikmyndinni Easy A sem kom út árið 2010.
Fyrrverandi barnastjarnan hefur glímt við geðhvarfasýki síðustu ár og var svipt sjálfræði sínu árið 2013. Móðir Bynes var lögráðamaður hennar í níu ár.
Vinsældir vefsíðunnar OnlyFans fara sívaxandi en hún var stofnuð árið 2016. Margar þekktar stjörnur úr Hollywood-heiminum nýta miðilinn til þess að ná sér í frekari tekjur og athygli, aðallega með því að selja myndir og myndbönd.
Á meðal þeirra sem halda úti áskriftarsíðum á miðlinum eru Denise Richards, Iggy Azalea, Carmen Electra, DJ Khaled, Chris Brown, Lily Allen og Drea de Matteo.