Tónlistarkonan og bassaleikarinn Margrét Sigurðardóttir kom, sá og sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna ásamt hljómsveit sinni Skandal. Poppsveitin, sem er skipuð sex hæfileikaríkum stúlkum, keppti fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri í Háskólabíói um liðna helgi og ljóst er að flutningurinn vakti verðskuldaða athygli.
Sigurinn var sætur fyrir stúlkurnar sem fögnuðu ákaft þegar úrslitin lágu fyrir, en Margrét gat því miður ekki hoppað og skoppað um sviðið, líkt og hljómsveitarfélagar hennar, vegna álagssjúkdóms í hné, sem hefur hrjáð hana síðustu árin.
Á mánudagsmorgun gekk Margrét, eða öllu heldur haltraði, inn á skurðstofu í Orkuhúsinu í Kópavogi þar sem hún gekkst undir aðra aðgerð sína.
Margrét er nú komin heim og er á fullu að jafna sig. Hún segir leiðinlegt að þurfa að eyða páskafríinu rúmliggjandi en getur þó glaðst þar sem það eru spennandi tímar fram undan hjá hljómsveitinni og henni sjálfri, en Margrét útskrifast af raungreina- og tæknibraut þann 17. júní næstkomandi.
Hefur þú alltaf haft mikinn áhuga á tónlist?
„Nei, ég get nú ekki sagt það, en áhuginn, þá sérstaklega á bassanum, ágerðist hratt. Ég var alltaf meira í íþróttum sem krakki, æfði fótbolta, badminton, dans og annað í þeim dúr, en ég neyddist til að hætta vegna hnésjúkdóms.
Ég lærði á bassa, eða kenndi mér sjálf að spila á bassa, eftir fyrstu hnéaðgerðina mína, það var sumarið eftir tíunda bekk, og upp frá því var ekki aftur snúið. Ég spilaði að vísu ekki á bassa í siguratriði Skandals, ég tók upp gítarinn fyrir það.“
Segðu mér aðeins frá því hvernig hljómsveitin varð til?
„Sko, upphaf Skandals má rekja til sameiningar tveggja hljómsveita. Við ákváðum að sameina krafta okkar til að taka þátt í hljómsveitarkeppninni Viðarstaukur sem haldin hefur verið í skólanum um árabil.“
Af hverju ákváðuð þið að taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna?
„Skandall hefur tekið þátt í söngkeppni Menntaskólans á Akureyri síðastliðin þrjú ár. Við höfum toppað okkur á hverju ári, lentum fyrst í þriðja sæti, svo öðru og enduðum svo á að sigra keppnina og þá fengum við tækifæri til að keppa fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna.“
Eins og fram hefur komið þá sigraði Skandall keppnina með laginu Plug In Baby eftir Muse. Faðir Margrétar, Sigurður Ægisson, guðfræðingur, þjóðfræðingur og rithöfundur, samdi íslenskan texta við lagið og fékk það titilinn Gervielska.
Þegar þú steigst á svið, varstu sárþjáð?
„Nei, reyndar ekki. Ég er búin að vera að drepast í hnénu undanfarið en adrenalínið kom mér í gegnum þetta.“
Geturðu sagt mér aðeins frá þessum sjúkdómi?
„Sjúkdómurinn ber heitið Osgood-Schlatter og hefur fylgt mér frá því að ég æfði fótbolta sem barn. Hann getur valdið langvinnum einkennum, meðal annars sárum verkjum í hnjám.“
Var ekkert leiðinlegt að fagna sigrinum vitandi að aðgerð væri handan við hornið?
„Jú, algjörlega, en ég vissi svo sem af þessu og var því alveg undirbúin.
Eftir sigurinn langaði mig auðvitað ekkert í aðgerð, ég vildi bara halda áfram að fagna með hljómsveitinni. En þetta var eitthvað sem þurfti að gerast. Ég fór í hnéspeglun.“
Hvað er fram undan hjá Skandal?
„Ég missi því miður af einhverjum „giggum“ þar sem ég er rúmliggjandi þessa stundina en það er von á lagi frá hljómsveitinni bráðlega og vonandi verða þau fleiri eftir það.“