Melinda Gates skildi við eiginmann sinn til 27 ára og stofnanda Microsoft, Bill Gates, fyrir fjórum árum síðan. Á mánudaginn opnaði hún sig um skilnaðinn í viðtalsþættinum The Late Show with Stephen Colbert.
„Ég lærði, þú veist, að eiga traust samband – sem er það sem ég vildi í hjónabandi – báðir aðilar verða að vera heiðarlegir við hvorn annan,“ var meðal þess sem hún sagði í þættinum.
„Og ef þú hefur það ekki, þá geturðu ekki fengið nánd og þú getur ekki treyst. Þannig að á endanum varð ég að fara.“
Þegar hún var spurð um hvort hún væri að hitta einhvern annan stokkroðnaði hún og svaraði því játandi. Hún ræddi þó ekki sambandið neitt frekar en vefmiðillinn Page Six staðfesti á síðasta ári að hún ætti í sambandi við viðskiptamógúlinn Philip Vaughn.
Melinda, sem er sextug, hefur áður sagt frá því að hún skildi við Bill vegna ótryggðar hans og tengsla hans við auðkýfinginn og kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein. Bill viðurkenndi síðar að samskipti þeirra Jeffreys, sem framdi sjálfsvíg í fangelsi 2019, hafi verið mistök.
Bill er stofnandi Microsoft og þrettándi ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes. Árið 2021 kom fram í fjölmiðlum að hann hefði átt í ástarsambandi við starfsmann Microsoft. Árið eftir viðurkenndi hann að hafa gert „mistök“ í hjónabandi sínu.
Skilnaður þeirra Bill og Melindu hefur aftur ratað í fréttirnar vegna bókarinnar The Next Day sem Melinda skrifaði um sambandsslitin. Hún hefur m.a. sagt skilnaðinn „erfiðustu“ en um leið „mikilvægustu“ ákvörðun sem hún hafi tekið í lífinu.