„Án þess að ég vilji hljóma tilgerðarlega held ég að „heima“ fyrir mér sé enska tungan,“ segir verðlaunahöfundurinn Hernan Diaz, sem verður gestur Alþjóðlegu bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík sem haldin verður 23.-27. apríl, en þema hátíðarinnar í ár er „Heima og heiman“.
„Ég fæddist í Argentínu en ólst upp í Svíþjóð, þar sem sænska varð mitt fyrsta félagslega tungumál. Við fluttum síðan aftur til Argentínu en mér fannst ég ekki eiga heima þar. Ég féll fyrir breskum og bandarískum bókmenntum sem unglingur svo að um leið og ég gat flutti ég á skólastyrk til Bretlands og bjó þar í nokkur ár. Ég fékk síðar styrk til að leggja stund á doktorsnám í New York. Ég kom hingað árið 1999 og hef verið hér síðan. Ástæðan fyrir því að ég fór til Bretlands og síðar Bandaríkjanna var að mig langaði að lifa á ensku. Ég elska þetta tungumál en ég á erfitt með að útskýra af hverju. Það er heimili mitt. Samkvæmt landafræðinni á ég heima í New York-borg en ég held að ég hefði það ágætt hvar sem enska er töluð.“
Spurður hvort það að vera innflytjandi hafi haft áhrif á það hvernig hann skrifi um bandarískt samfélag segir hann að því sé erfitt að svara. „Ef ég svara játandi, sem ég er ekki að gera, og segi að það að vera innflytjandi hafi veitt mér gagnrýna sýn á bandarískt samfélag getur einhver annar, alveg jafn auðveldlega, haldið því fram að til þess að skilja bandarískt samfélag almennilega verði maður að hafa fæðst hér. Ég held að það sé svolítið áhættusamt að einfalda þetta svona. Hver sem er getur haft áhugaverða og marglaga sýn á samfélagið svo lengi sem hann hefur augun opin, leyfir sér að finna fyrir því hvað hefur gerst í kringum hann og er tilbúinn að fjárfesta tíma í að læra um þá fortíð sem hefur mótað samtímann.“
Fyrsta útgefna skáldsaga Diaz nefnist In the Distance (2017) og fjallar um sænskan mann sem verður viðskila við bróður sinn á leiðinni til Bandaríkjanna á miðri 19. öld. „Ég reyndi að skrifa um farandupplifunina á nýjan hátt. Ég er innflytjandi og finnst ég í raun ekki tilheyra neins staðar. Í Svíþjóð skar ég mig úr en í Argentínu talaði ég spænsku með hreim og klæddist tréklossum. Hér er líka augljóst að ég er ekki fæddur í Bandaríkjunum. Ég er í rauninni með hreim í öllum þeim tungumálum sem ég tala, sem segir eitthvað. En ég skrifa ekki sjálfsævisöguleg verk, sem eru svo áberandi núna. Sumir gera þetta mjög fallega og eru afbragðsgóðir höfundar. Það er bara ekki fyrir mig. Ég trúi á mikilvægi þess skáldaða og fyrir mér er það að skrifa að stroka út mínar persónulegu aðstæður,“ segir Diaz.
Ítarlega er rætt við Hernan Diaz á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, fimmtudag. Þar ræðir hann um bækur sínar sem vakið hafa mikla athygli sem og sjónvarpsþáttaröð byggð á skáldsögunni Trust sem er í bígerð.