„Ég hafði verið undir miklu álagi í kennslunni og hafði einnig upplifað erfiðleika í fjölskyldunni í æsku og var því með innibyrgða streitu og reiði. Ég fann að ég var með ýmsar tilfinningar sem ég hafði lokað á og þurfti að takast á við. Ég hafði uppi mjög sterkar varnir og það tók mig langan tíma að hætta að gera felumyndir, myndir sem ekki væri hægt að lesa neinn sérstakan vanda út úr, og reyndi í fremstu lög að sýna ekki veikleika mína.
Ég þurfti þennan tíma og að fá að koma og vera í friði að gera mínar myndir. Sigríður pressaði aldrei á mig að skila einhverju og hægt og rólega fór ég að gera sífellt persónulegri myndir þar til ég fór loks að þora að segja frá því sem var erfitt,“ segir Ágústa Oddsdóttir um upplifun sína af listþerapíu hjá Sigríði Björnsdóttur listþerapista en stutt er síðan Ágústa skrifaði bók um ævistarf Sigríðar, Art Can Heal: the life and work of Sigríður Björnsdóttir, og hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2024 fyrir útgáfu á sviði myndlistar. Bókin var gefin út á ensku af þýska útgefandanum König Books en Egill Sæbjörnsson listamaður og sonur Ágústu kom einnig að útgáfunni.
Í formála bókarinnar segir að Sigríður sé frumkvöðull á sviði listþerapíu og þróun hennar og hafi lagt mikla áherslu á andlega heilsu barna. Mikilvægt sé að þau fái í hendurnar tól til þess að vinna t.d. úr áföllum og þá skipti leikur og sköpun höfuðmáli.
Sigríður segir það að hún skyldi veljast í þetta starf vera eins konar köllun. „Þetta var hugsjónastarf og ég hafði svo mikinn áhuga á að virkja þessi veiku börn. Spítalaumhverfið var svo hreint og strangt og ég var ekki sátt við þá iðju sem börn fengu á þeim tíma,“ segir Sigríður.
Nánar er rætt við Sigríði og Ágústu á menningarsíðum Morgublaðsins í dag, laugardag.