„Þetta er einstakt tækifæri til að hlera það mest spennandi í leikritun framtíðarinnar,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson um leikritahátíð Þjóðleikhússins sem nefnist Guli dregillinn og haldin verður eftir viku. Að sögn Matthíasar Tryggva, sem er listrænn stjórnandi hátíðarinnar og jafnframt einn af dramatúrgum Þjóðleikhússins, er Guli dregillinn eitt af þeim verkefnum sem hleypt er af stokkunum í tilefni af 75 ára afmæli Þjóðleikhússins, sem var vígt sumardaginn fyrsta 20. apríl 1950, en fleiri verkefni verða kynnt síðar á árinu.
Laugardaginn 26. apríl verða þrjú glæný íslensk leikverk frumflutt í æfðum leiklestri af leikhópi Þjóðleikhússins. Dagskráin hefst kl. 14 með Kronplatz eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur; kl. 17 er komið að Nýju eldhúsi eftir máli eftir Friðgeir Einarsson og kl. 20 er það Töfrapilsið eftir Kolfinnu Nikulásdóttur. Matthías Tryggvi hefur listræna umsjón með leiklestrinum á Kronplatz, Björn Thors með Nýju eldhúsi eftir máli og Kolfinna sjálf með Töfrapilsinu. „Í kjölfar leiklestranna fá gestir tækifæri til þess að ræða við höfunda og í lok dags er partí,“ segir Matthías Tryggvi og tekur fram að verkin eigi það sameiginlegt að þau veki áhuga Þjóðleikhússins, segi hrífandi sögur og eigi mikilvægt erindi við leiksviðið.
Má reikna með því að eitthvert verkanna rati í framhaldinu á svið hjá Þjóðleikhúsinu í fullri sviðsetningu?
„Við sjáum að þessi leikrit eiga brýnt erindi við leiksviðið. Þau eru í grunninn myljandi fyndin, djúp, spennandi, skörp og bera skáldunum fagurt vitni. Við vonum að þau rati alla leið, hvort heldur er hér í Þjóðleikhúsinu eða á öðru atvinnusviði.“
En hvað getur þú sagt mér um innihald verkanna þriggja?
„Kronplatz eftir Hildi er fjölskyldusaga í fullri lengd sem gerist í dystópískri nærframtíð. Þar er mjög dysfúnksjónalt og sjálfsómeðvitað fólk sem týnist í amstri sínu um það leyti sem heimsbyggðin steypist í glötun.
Í Nýju eldhúsi eftir máli er hatturinn tekinn ofan fyrir sögum með mjög líkum titli Svövu Jakobsdóttur. Við erum að velta fyrir okkur íslenskum hversdagsleika, karlmennsku, kvenleika og nútímanum í mjög skoplegri mynd.
Í napurlegri torfbæjartilveru finnur aðalpersóna Töfrapilsins getnaðarvörn sér til frelsunar og gleði. Titill verksins vísar í þessa getnaðarvörn, sem er sótt í íslenskar þjóðsögur. Kolfinna sækir í þjóðsögurnar með sínu nefi og tekur sér frelsi til að endurskapa þann arf og ákveðið tímabil í Íslandssögunni.“
Nánar var rætt við Matthías Tryggva á menningarsíðum Morgunblaðsins í gær, laugardaginn 19. apríl.