Breska leikkonan Jean Marsh lést á dögunum. Hún var níræð og hafði þjáðst af elliglöpum. Hún átti sex áratuga leikferil.
Marsh fór í ballettnám sjö ára gömul og leikhæfileikar hennar komu snemma í ljós. Hún fór í leiklistarskóla og átján ára fékk hún fyrsta hlutverk sitt, í sjónvarpsmynd, og fyrsta kvikmyndahlutverkið ári síðar.
Marsh var þekktust fyrir leik sinn í framhaldsþáttunum Upstairs, Downstairs (1971-1975 og 2010-2012), en þeir nutu gríðarlegra vinsælda víða um heim og voru sýndir hér á landi. Þættirnir fjölluðu um líf vel stæðrar fjölskyldu og þjónustuliðs hennar. Marsh lék yfirþernuna Rose Buck og hlaut Emmy-verðlaunin fyrir leik sinn árið 1975, en alls hlutu þættirnir sjö Emmy-verðlaun og Peabody-fjölmiðlaverðlaunin sem njóta mikillar virðingar.
Marsh var höfundur þáttanna ásamt vinkonu sinni, leikkonunni Eileen Atkins. Þær dvöldu í húsi auðugs vinar í Suður-Frakklandi og hafði Marsh orð á því að hún vildi óska þess að hún gæti oftar notið slíkra lystisemda. Hún fékk hugmynd að þáttum sem sýndu samskipti milli ólíkra stétta í sama húsi. Ekki er hægt að efast um að Downton Abbey-þættirnir vinsælu séu undir miklum áhrifum frá Upstairs, Downstairs. Ný gerð þáttanna var gerð árið 2010 og Marsh endurtók hlutverk sitt, en fékk hjartaáfall og varð eftir það lítt sýnileg í þáttunum.
Þær Eileen Atkins lögðu einnig saman krafta sína í framhaldsþáttunum The House of Eliot. Mars lék ekki í þeim en skrifaði handrit að nokkrum þáttum.
Marsh lék í sjónvarpi, á sviði og í kvikmyndum. Meðal eftirminnilegra kvikmynda sem hún lék í var A Clockwork Orange, sem snillingurinn Stanley Kubrick leikstýrði, og mynd Alfred Hitchcock, Frenzy (1972), þar sem hún lék ritara sem kemur að líki yfirmanns síns og sakar rangan mann um morðið.
Hún giftist leikaranum Jon Pertwee, sem lék aðalhlutverkið í Doctor Who-þáttunum frá 1955-1960, en Marsh lék nokkrum sinnum í þessum gríðarlega vinsælu þáttum. Þau skildu í vinsemd eftir fimm ára hjónaband. Hún átti í ástarsambandi við leikarana Kenneth Haigh og Albert Finney og seinna við leikstjórann Michael Lindsay-Hogg. „Ég hef átt félaga sem ég íhugaði að giftast og íhuguðu að giftast mér. Vandamálið var að við fengum hugmyndina aldrei á sama tíma,“ sagði hún seint á ævinni. Hún var barnlaus.
Hún var lífsglöð og full af þrótti langt fram eftir aldri og sagði það stafa af forvitni sinni og því að veita alls kyns hlutum athygli. „Ég er heilluð af fólki. Ég horfi á það og hugsa: Ó, þessi var að kaupa yndislega skorpna gulrót. Ég tek eftir öllu.“
Síðasta sjónvarpshlutverk hennar var í einum þætti í framhaldsþáttunum Grantchester árið 2015 og síðasta kvikmyndahlutverkið lék hún árið 2009 í spennumyndinni The Heavy. Hún skrifaði þrjár skáldsögur: Fiennders Abbey, The House of Eliott, og Iris.
Hún var sögð skarpgreind og orðheppin. Hún var ekki einungis hæfileikarík leikkona heldur einnig baráttumanneskja fyrir því að raddir kvenna heyrðust í listum.
Kvikmyndaleikstjórinn Michael Lindsay-Hogg, sem hún átti í tíu ára löngu ástarsambandi við og var náinn vinur hennar allt þar til hún lést, sagði um hana eftir lát hennar: „Í þrjátíu ár vorum við mjög náin og töluðum saman í síma svo að segja á hverjum degi. Hún var ein vitrasta og skemmtilegasta manneskja sem ég hef kynnst og auk þess mjög falleg og góð, og hæfileikarík leikkona og handritshöfundur. Allir sem hittu hana elskuðu hana.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.