Ferð á fjallið er yfirskrift sýningar Kristínar Pálmadóttur í Hannesarholti. Þar sýnir hún málverk og grafíkverk.
„Þessi titill, Ferð á fjallið, kom til mín. Í verkum mínum hef ég verið að þróa hugsunina um að ganga á fjall. Í myndunum er eins og maður fari upp hæð, þrep af þrepi,“ segir Kristín.
„Í myndlist minni er áberandi hugsunin um að færa sig upp fjallið og njóta náttúrunnar, en ekki endilega að komast á toppinn. Það hefur alltaf verið mér svo hugleikið að horfa niður fyrir fæturna og skoða það sem þar er. Fyrir einhverjum árum hélt ég einmitt sýningu sem hét Landið við fætur þér,“ segir Kristín.
Hún útskrifaðist árið 1994 frá grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. „Ég naut þess mjög að vera í grafíkdeildinni og kennararnir voru metnaðarfullir og frábærir. Tæknin í grafíkinni höfðaði strax mjög til mín. Það er óvissa og munstur í grafík, alveg eins og í náttúrunni. Í deildinni var boðið var upp á námskeið í ljósmyndun sem var meðal annars kveikjan að ljósmyndaáhuga mínum.
Eftir útskrift vann ég aðallega í ætingu. Um 2000 færði ég mig meira yfir í ljósmyndaætingu. Það hafði alltaf höfðað mikið til mín að taka myndir og ég fór að sameina ljósmyndaáhugann og grafíkina. Ég náði mjög góðum árangri en gallinn var sá að ég varð að æta í saltpéturssýru til að ná fram þeim áhrifum sem ég vildi laða fram. Ég gerði þetta í nokkur ár með góðum árangri en svo fann ég að ég var að hætta heilsunni. Ég veit um fleiri listamenn sem hurfu frá saltpéturssýrunni. Síðan kom ný tækni þannig að hægt var að kaupa ljósnæmar filmur og síðar ljósnæmar plötur og núna nýti ég þær í grafíkinni. Ég hef líka alltaf verið að mála því mér finnst svo ánægjulegt að vinna í báða þessa miðla.“
Á sýningunni eru grafíkverk sem Kristín málaði ofan í. „Ég ætla að fara að vinna meira á þann hátt; mér finnst það mjög spennandi því þá er eins og málverkið og grafíkin renni saman. Þegar sýningin er skoðuð í heild sést nokkuð vel að málverkin og grafíkverkin eru farin að minna hvert á annað.“
Kristín hefur haldið margar einkasýningar, meðal annars í Gallerí Skugga og Start Art, og tekið þátt í samsýningum um allan heim, meðal annars á Íslandi, Spáni, í Kína, Þýskalandi, Kanada, Japan og í fleiri löndum. Kristín hefur dvalið í Kjarvalsstofu í París og í gestavinnustofu í Bretlandi. Hún hefur hlotið styrk frá Myndstefi og Art Council í Bretlandi.
Sýning hennar í Hannesarholti stendur til 30. apríl. Hún er opin á opnunartímum Hannesarholts, alla daga nema sunnudaga og mánudaga, kl. 11.30-16.