Bandaríska leikkonan Liliane Rudabet Gloria Elsveta Sobieski, betur þekkt undir listamannsnafninu LeeLee Sobieski, var ein skærasta stjarna tíunda áratugarins og eru flestir meðlimir þúsaldarkynslóðarinnar, svokallaðir Millenials, henni vel kunnugir.
Sobieski skaust upp á stjörnuhimininn árið 1998 þegar hún fór með hlutverk í stórslysamyndinni Deep Impact ásamt þeim Robert Duvall, Morgan Freeman og Elijah Wood, en unga leikkonan varð þó heimsfræg, þá helst meðal ungmenna, fyrir hlutverk sitt í rómantísku gamanmyndinni Never Been Kissed frá árinu 1999, þá 15 ára gömul.
Sú mynd sló rækilega í gegn á heimsvísu og reyndist mörgum leikurum frábær stökkpallur, en hún skartaði einnig Octaviu Spencer, Jessicu Alba, James Franco, David Arquette, John C. Reilly, Michael Vartan og Drew Barrymore.
Sobieski var aðeins 11 ára gömul þegar hún landaði fyrsta hlutverki sínu í sjónvarpsmyndinni Reunion. Þar lék hún á móti verðlaunaleikkonunni Marlo Thomas, sem flestir kannast við úr gamanþáttaröðinni Friends, en Thomas fór þar á kostum sem móðir Rachel Green.
Sobieski vakti fljótt athygli sjónvarps- og kvikmyndaframleiðenda í Bandaríkjunum og fór meðal annars með hlutverk í Joan of Arc, Eyes Wide Shut, Joy Ride, The Glass House og The Wicker Man ásamt hinum fyrrnefndu Deep Impact og Never Been Kissed.
Þegar ferill leikkonunnar stóð í hvað mestum blóma kaus hún að draga sig í hlé þar sem hún vildi ólm sækja sér háskólamenntun. Hún stundaði nám í bókmenntafræði og listum við Brown-háskóla í Providence á Rhode Island, en útskrifaðist ekki.
Sobieski sagði skilið við leiklistina árið 2012 og hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem myndlistarmaður og haldið sýningar víðs vegar um Bandaríkin.
Hún hefur verið hamingjusamlega gift frá árinu 2010 og býr ásamt eiginmanni sínum, fatahönnuðinum Adam Kimmel, og tveimur börnum þeirra, Louisönnu Ray og Martin, í Red Hook-hverfinu í New York, en Sobieski er fædd og uppalin í stórborginni.