Svo virðist vera sem leikarinn Paul Rudd hafi fundið æskubrunninn, en hann virðist ekkert hafa elst undanfarna áratugi.
Rudd, sem er nýorðinn 56 ára, endurgerði auglýsingu fyrir Nintendo til að auglýsa nýjustu útgáfuna af hinum sívinsæla Super Mario-tölvuleik. Leikarinn fór með hlutverk í sams konar auglýsingu fyrir japanska tölvuleikjarisann árið 1991, en það var með fyrstu hlutverkum hans.
Rudd skaust fyrir alvöru upp á stjörnuhimininn árið 1995, þá 26 ára gamall, þegar hann landaði hlutverki í unglingamyndinni Clueless.
Í nýju auglýsingunni er Rudd klæddur dimmbláum frakka, laxableikum bol og með hálsmen með leðuról, líkt og í þeirri fyrri, en það er stíll sem flestallir meðlimir þúsaldarkynslóðarinnar, svokallaðir Millenials, þekkja vel, og klæðir það leikarann jafn vel, ef ekki betur, í dag en fyrir rúmum þrjátíu árum síðan.
Bandaríski leikarinn hefur lengi vakið athygli fyrir unglegt útlit, enda ekki hrukku að sjá né grátt hár.
Margir hafa velt vöngum yfir því hvert leyndarmálið sé að svo unglegu útliti Rudd og hefur hann ávallt sagt góðan svefn vera lykilinn.