Ástin sem eftir er, nýjasta kvikmynd Hlyns Pálmasonar, verður heimsfrumsýnd í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í Frakklandi sem haldin verður dagana 13. til 24. maí.
Frá þessu greinir Kvikmyndamiðstöð Íslands á Facebook-síðu sinni þar sem þess er enn fremur getið að kvikmyndin verði sýnd í Cannes Premiere-flokki hátíðarinnar, fyrst íslenskra kvikmynda.
Hlynur Pálmason, leikstjóri og handritshöfundur, útskrifaðist úr Danska kvikmyndaskólanum í Kaupmannahöfn árið 2013 og var fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd Vetrarbræður (2017) sem er dönsk mynd. Önnur mynd Hlyns, Hvítur, hvítur dagur (2019), átti velgengni að fagna og hlaut fjölda verðlauna og tilnefninga.