Hinn 27 ára gamli Christopher Schwarzenegger, yngsta barn fyrrverandi Hollywood-hjónanna Arnold Schwarzenegger og Mariu Shriver, var nær óþekkjanlegur þegar hann sást yfirgefa veitingahúsið Restoration Hardware í Hollywood ásamt systkinum sínum, Patrick, Katherine og Christinu og eiginmanni Katherine, leikaranum Chris Pratt, á sunnudag.
Schwarzenegger, yfirmaður þróunarmála hjá framleiðslufyrirtækinu Indus Valley Media, hét því að breyta lífsháttum sínum árið 2020, eftir nokkurra ára baráttu við ofþyngd og offitu, og hefur svo sannarlega staðið sína plikt, en hann er sagður hafa skafið af sér hátt í 30 kíló með breyttu mataræði og hreyfingu.
Schwarzenegger hefur að mestu haldið sig frá sviðsljósinu síðustu ár, en systkini hans, Patrick og Christina, hafa gert það gott sem leikarar og Katherine getið sér gott orð sem rithöfundur.
Hann mætir þó af og til á viðburði í Hollywood og stillti sér meðal annars upp á rauða dreglinum ásamt fjölskyldu sinni þegar þriðja þáttaröð The White Lotus var frumsýnd í febrúar síðastliðnum, en bróðir hans fer með hlutverk í þáttaröðinni.