Söngkonan Karen Silva, best þekkt fyrir þátttöku sína í brasilísku útgáfunni af The Voice Kids, lést í gær, fimmtudag. Hún var 17 ára gömul.
Silva, sem komst í undanúrslit í hæfileikakeppninni árið 2020, lést á São João Batista-sjúkrahúsinu í Volta Redonda aðeins örfáum dögum eftir að hafa fengið heilablóðfall.
„Karen var meira en bara efnilegur listamaður, hún var tákn um valdeflingu. Sérstaklega fyrir ungar svartar stúlkur sem fundu í henni innblástur og styrk til að láta drauma sína rætast,“ sagði kynningarfulltrúi söngkonunnar í samtali við The Mirror.
Silva var aðeins 12 ára gömul þegar hún heillaði dómara og áhorfendur upp úr skónum með kraftmikilli söngrödd sinni.