Það er gömul saga og ný að rokkhljómsveitir hætti störfum og byrji síðan aftur. Um það eru fjölmörg dæmi og ábyggilega miklu algengara en að þær leggi upp laupana fyrir fullt og fast. Sumar hætta meira að segja og byrja aftur og aftur. Hitt er án efa sjaldgæfara að meira en hálf öld líði frá því að band liðast í sundur þangað til það gengur saman aftur, eins og Alice Cooper hefur nú gert, það er bandið en ekki gaurinn sem þó er að sjálfsögðu í bandinu líka.
Upprunalega útgáfan af Alice Cooper tók sitt síðasta gigg 8. apríl 1974 og ekki spurðist til þess meir fyrr en um liðna helgi, að kunngjört var að það hefði ekki bara komið saman á ný, eftir 51 árs hlé, heldur hefði það einnig tekið upp nýja plötu, The Revenge of Alice Cooper, sem væntanleg er í allar betri plötuverslanir 25. júlí.
Alice Cooper-bandið gaf út sjö breiðskífur á árunum í kringum 1970, sumar hverjar víðfrægar, svo sem Killer, School's Out og Billion Dollar Babies. Sú síðasta, Muscle of Love, kom út 1973.
Alice Cooper sjálfur, skírður Vincent Damon Furnier, er að sjálfsögðu á sínum stað við hljóðnemann, orðinn 77 ára. Eins gítaristinn Michael Bruce og trymbillinn Neal Smith, sem eru jafnaldrar Coopersins, og bassistinn Dennis Dunaway, sem er árinu eldri. Sum sé þroskaðir menn á besta aldri.
Það vantar bara gítarleikarann Glen Buxton en hann er löglega afsakaður, lést árið 1997. Það kemur þó ekki í veg fyrir að Buxton komi við sögu á nýju plötunni en gömul upptaka með honum er notuð í einu laganna, What Happened to You.
Fyrsta smáskífan af plötunni, Black Mamba, kom út í vikunni og þar leggur enginn annar en Robbie Krieger úr The Doors Cooperunum lið. „Þetta lag leggur baneitraðar línur fyrir það sem koma skal við þessa endurreisn Alice Cooper, drekkhlaðið kunnuglegum klassískum riffum og rafmagnaðri orku,“ segir um Black Mamba á málmvefnum Blabbermouth.com.
Um plötuna í heild segir að menn stingi sér á bólakaf í rokkheim snemmsjöunnar, bæði hvað varðar efnistök, sánd og almennan anda. Enda leituðu menn ekki langt yfir skammt að upptökustjóra, Bob Ezrin, sem vann með Alice Cooper í gamla daga, var klár í bátana, enda ekki nema 76 ára, strákurinn. Hann hefur áreiðanlega verið látinn hella upp á kaffið í hljóðverinu.
Af öðrum lögum á plötunni má nefna Wild Ones og See You On the Other Side. Hvort það er lokalagið á hlið A liggur ekki fyrir en kannski eru menn bara farnir að huga að brottför, svona almennt. Nei, varla.
The Revenge of Alice Cooper verður gefin út í alls konar viðhafnarvínilútgáfum og öllum mögulegum litum, auk þess sem hent verður upp alls kyns spariboxum. Eins og gengur þegar menn hafa haldið í sér í meira en hálfa öld. Þá verða leikhúsáhrifin örugglega ekki langt undan eins og jafnan þegar Cooperinn er annars vegar.
Cooper tjáði tímaritinu Billboard að allt hefði smollið saman um leið. „Þetta var bara eins og að gera næstu plötu á eftir Muscle of Love. Er það ekki skondið eftir 50 ár? Allt bara fellur eins og flís við rass.“
Að sögn Ezrins hefur lítið breyst á þessum 50 árum. „Enginn þeirra hefur breyst í háttum. Auðvitað eru allir orðnir eldri, þroskaðri og öruggari í eigin skinni, en þegar við komum allir saman og ég sá hvernig þeir létu hver við annan þá leið mér bara eins og við hefðum verið að rölta út úr menntó og hlamma okkur inn á kaffihús.“
Kaffíhús? Ertu að grínast? Sjáið þið Alice Cooper fyrir ykkur á kaffihúsi um tvítugt? Nei, hélt ekki.
En leyfum Ezrin að klára: „Þeir urðu bara þeir aftur eins og þeir voru þegar þeir kynntust fyrst sem strákar … og músiseruðu eins og þeir gerðu fyrir hálfri öld.“
Spurður í Billboard hvort til stæði að fylgja nýju plötunni eftir með tónleikahaldi svaraði Cooper: „Við erum ekki komnir svo langt. Það yrði þó varla alvörutónleikaferðalag; það yrði að ég held mjög, mjög erfitt hafi menn ekki gert það lengi. En ég sé alveg fyrir mér gigg og gigg, eins og að demba okkur inn í borgirnar, Detroit, New York, LA og kannski Lundúnir, og spila í hálftíma eða 40 mínútur í einhverjum klúbbi eða slíku. Við höldum því alveg opnu og ef það virkar spennandi þá látum við slag standa.“
Eftir að upprunalega bandið gaf upp öndina hélt Alice Cooper áfram undir sama nafni, sem gerir þetta kannski aðeins ruglingslegt, en með allt öðrum músíköntum. Frá þeim tímapunkti hafa komið út 22 sólóplötur, sú síðasta, Road, árið 2023.
Fyrsti vísirinn að Alice Cooper-bandinu varð til 1964 og kallaðist þá The Earwigs. Nafninu var síðar breytt í The Spiders og svo Nazz. 1968 kom í ljós að Todd Rundgren var einnig með band sem hét Nazz, þannig að enn varð að breyta til. Þá kom nafnið Alice Cooper. Það varð fyrir valinu vegna þess að það hljómaði saklaust og í hróplegu ósamræmi við villta ímynd bandsins. Í bókinni Alice Cooper, Golf Monster, frá 2007, fullyrðir Cooper að innblástur hafi verið sóttur í kvikmyndir, meðal annars eina af uppáhaldsmyndum þeirra félaga, Whatever Happened to Baby Jane með Bette Davis frá 1962 en þar var persóna Davis með subbulegan farða og biksvarta umgjörð um augun.
Eins kolféll Cooper fyrir persónu Anitu Pallenberg í Barbarellu frá 1968. „Hún var klædd í langa svarta leðurhanska og eggvopn stóð fram úr og ég hugsaði með mér: Svona á Alice að líta út. Það og smávegis af Emmu Peel í The Avengers.“
Það að gamla bandið sé komið saman á ný þýðir ekki að Alice Cooper sé hættur að starfrækja sólóband sitt sem verið hefur duglegt að hljóðrita efni og koma fram á tónleikum undanfarin ár – og í raun alla tíð frá 1974. Í því bandi nú eru gítarleikaranir Ryan Roxie, Tommy Henriksen og Nita Strauss, bassaleikarinn Chuck Garric og trommarinn Glen Sobel. Listinn yfir listamenn sem troðið hafa upp með Coopernum gegnum árin er gríðarlega langur og ég gafst hreinlega upp á því að telja.
Alice Cooper hefur verið giftur Sheryl Cooper frá árinu 1976 og eiga þau þrjú börn, Calico, Dashiel og Sonoru. Sú fyrstnefnda hefur komið fram með pabba gamla sem bakraddasöngkona.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.