Sýningin Radiance með nýjum verkum eftir Ignacio Uriarte stendur yfir í i8 galleríi. Þetta er fjórða einkasýning listamannsins í i8. Uriarte fæddist í Þýskalandi en býr og starfar á Spáni. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga í Bandaríkjunum og Evrópu.
Á sýningunni eru teiknuð og vélrituð verk á pappír ásamt veggskúlptúr. Verkin eiga það sameiginlegt að byggja form sín á einföldum rúmfræðilegum eiginleikum og eru unnin með kerfisbundnum og nákvæmum hætti.
„List mína má rekja til fyrra starfs míns en ég vann skrifstofuvinnu í áratug og var afar vansæll. Starfið var leiðinlegt vegna þess að ég var ekki sérlega góður í því sem ég var að gera. Ég hef heldur ekki þessa hefðbundnu listrænu hæfileika, er til dæmis ekki frábær teiknari, bara sæmilegur,“ segir Uriarte.
„Ég fór í tveggja ára nám í hljóð- og myndlist með áherslu á kvikmyndahandrit. Eftir það hugsaði ég með mér að sem handritahöfundur, til dæmis í sjónvarpi, yrði ég of háður öðrum og yrði ekki fullkomlega frjáls í hugmyndavinnu. Ég fór að gera vídeó og taka myndir og leitaðist við að skapa mér sérstöðu. Í mínum huga er góð list heiðarleg. Besta leiðin til að vera heiðarlegur er að tala um og vinna með hluti sem maður þekkir vel. Þess vegna fór ég að vinna með ýmislegt sem tengist starfi á skrifstofum, eins og ritvélar, ljósritunarpappír, merkipenna, reglustikur og fleira.“
Þannig hófst vinna hans sem listamaður fyrir tuttugu árum en verkin hafa þróast á þeim tíma. „Verk mín eru enn í þessum anda en þau eru orðin flóknari, frjálsari og margræðari. Á þessari sýningu eru til dæmis teikningar þar sem ég hef teiknað nánast ósjálfrátt með endurteknum handahreyfingum. Ég hef komið mér upp ákveðinni teiknitækni og dæmi um hana eru á þessari sýningu.
Áður vann ég aðallega með svart og hvítt, svart blek og hvítan pappír eða notaði þá fjóra liti sem oftast sjást í skrifstofum: blátt, grænt, svart, rautt. Hér er ný og hlýrri litapalletta, brúnn, dökkrauður og dökkblár, sem ég bý til með því að blanda saman lit úr merkitússi og bleki úr skrifstofupenna.“
Meðal verka á sýningunni eru vélritaðar teikningar. „Ég á breiða ritvél en vandamálið er að mörg drög að verkum koma ekki vel út. Ef allt gengur vel get ég gert eina mynd á tveimur dögum en oft geri ég margar og kannski er einungis ein í lagi. Ég vil að slögin skapi dýpt og takt í myndunum og oft þarf ansi margar tilraunir til að það takist.“
Eitt verk, Circle Shift, er gert úr reglustikum. „Ég á ung börn sem ég leik oft við og við byggjum og mælum. Hugmyndin spratt upp úr slíkum leikjum. Ég hugsaði: Það væri gaman að skapa verk með því að klippa reglustikur og snúa þeim. Þetta er einfalt verk sem virðist flókið og snýst um rýmið og mælingu á tímanum.
Í verkum mínum er ég að brjóta upp línur, sameina línur og hringi og mynda lykkjur. Dæmi um það er einmitt þetta verk, Circle Shift, og svo verkið Stripe Circle þar sem er ofgnótt af táknum og myndum. Svo má nefna verkið Four Loops þar sem lykkjur fara undir brú og litur þeirra breytist. Þetta eru verk sem þarf að vinna kerfisbundið og af nákvæmni til að þau verði marglaga.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.