Á Heima bjóða margir fólki inn til sín, inn í miðja stofu þar sem tónlistarflutningurinn fer fram, en aðrir útbúa tónleikasvæði í garðinum sínum, sem hefur færst í vöxt síðustu árin. Stundum bjóða sömu aðilar heim til sín í nokkur ár, en þetta hefur verið ótrúlega fjölbreytt og maður hefur komið inn á þó nokkuð mörg heimili í miðbæ Hafnarfjarðar síðustu árin. Hátíðin er alls ekki stór, ekki allt of dreifð um bæinn og auðvelt að ganga frá einum stað til annars á skömmum tíma.
Þetta hófst allt árið 2014 og ég hef verið svo lánsamur að fá að fylgjast með hátíðinni frá byrjun. Menningar- og listafjelag Hafnarfjarðar stóð upphaflega fyrir þessari látlausu hátíð þar sem allskonar tónlistarfólk kom fram á stuttum tónleikum. Fyrsta árið var gestafjöldinn ekkert allt of mikill en samt mættu það margir að ákveðið var að halda þessu áfram. Skipuleggjendum hefur tekist að halda í töfrana og fjölbreytnina ár eftir ár.
Meginþorri þeirra sem kaupa miða á hátíðina kemur aftur og aftur og vill helst ekki missa af neinu, sem er nánast ógerlegt þar sem nokkrir viðburðir hefjast á sama tíma á mismunandi stöðum. Það er því nauðsynlegt að skipuleggja sig vel og leggja áherslu á það sem manni finnst mest spennandi í hvert sinn. Það er líka gaman að láta koma sér á óvart með einhverju sem maður hefur ekki séð eða heyrt áður og það gerist á hverju ári.
Kjarni þeirra sem sækja hátíðina að jafnaði er frekar þéttur og maður sér sömu andlitin árlega, en líka fullt af nýjum andlitum. Vinahópar taka sig saman um að mæta og svo hefur hátíðin spurst ágætlega út þannig að það koma alltaf nokkrir nýir tónleikagestir á hverju ári.
Þegar líður á kvöldið verða litlu staðirnir troðfullir mjög fljótt. Tónleikagestir hafa flestir áttað sig á því að það er skynsamlegt að mæta snemma á minni staðina til að missa ekki af uppáhaldstónlistarfólkinu sínu.
Hvert og eitt atriði kemur fram á tveimur ólíkum stöðum í bænum á mismunandi tímum og með góðu skipulagi er hægt að komast yfir mjög margt. Þeir sem ná ekki að troða sér inn í stofu á minnstu heimilunum geta staðið í anddyrinu, úti á tröppum eða í garðinum og hlustað þar, sem er líka skemmtilegt. Þá myndast oft gefandi nánd við aðra gesti sem eru í sömu stöðu.
Gamlir vinir og kunningjar sem hafa ekki sést lengi hittast gjarnan á þessu kvöldi síðasta vetrardag, taka tal saman eða kinka bara kolli hver til annars. Það er líka gaman að kynnast nýju fólki sem maður hefur ekki hitt áður og skiptast á skoðunum og njóta samverunnar og tónlistarinnar.
Bærinn hreinlega iðar af lífi, fólk er á þönum milli staða eða í rólegheitum að ræða málin og bera saman bækur sínar. Stemningin er einstök, allir svo glaðir og þakklátir fyrir þetta góða framtak. Og það sem er ekki síður áhugavert er að á hverju ári heyrir maður og sér eitthvað nýtt; eitthvað sem maður hafði kannski haft spurnir af en ekki kynnt sér fram að þessu.
Veðrið hefur að sjálfsögðu verið mismunandi að kvöldi síðasta vetrardags á þeim rúma áratug sem hátíðin hefur verið haldin. Stundum kalt, smá rigningarúði og vindur, sem er bara gott þegar maður hefur verið inni í troðfullri stofu hjá einhverjum þar sem hitinn hefur náð hæstu hæðum vegna troðnings. Þá er gott að komast aftur út og kæla sig aðeins áður en farið er á næsta stað. Núna í ár var veðrið með allra besta móti miðað við árstíma, eins og oftast áður, og alls ekki hægt að kvarta yfir því.
Maður hittir oft sama fólkið á röltinu milli staða og spyr kannski: Hvert ætlar þú næst? Að þessu sinni mættu langflestir til að sjá Pál Óskar og gítarleikarann Ásgeir Ásgeirsson þegar þeir komu fram í bakgarði við Suðurgötuna. Þangað lá straumurinn um mitt kvöld og Palli skilaði sínu með mikilli prýði eins og alltaf. Það er mjög ánægjulegt hvað hann hefur náð sér vel eftir kjálkabrotið sem allir voru meðvitaðir um. Palli kom fram á tveimur stöðum til viðbótar og hitaði upp fyrir Celebs með dansvænum perlum sínum undir lokin í Bæjarbíói.
Allir tónlistarflytjendurnir stóðu sig með afbrigðum vel, en það voru Hafdís Huld sem opnaði hátíðina, Dóra og döðlurnar, K.Óla, Brimbrot, Gissur Páll, Teitur Magnússon, Ólöf Arnalds, Axel Flóvent, Páll Óskar, Eiki Hauks og Sigurgeir Sigmunds, Sigga Thorlacius og Guðmundur Óskar, Spacestation og Celebs sem slógu lokatóninn að þessu sinni.
Svo merkilega vill til að mér tókst að sjá níu af þrettán atriðum sem voru í boði. Þetta var frábær skemmtun og gaman að fá tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðum hópi tónlistaráhugafólks sem naut kvöldsins í botn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.