Tónlistar- og matarhátíðin Lóa Festival verður haldin í Laugardalnum í sumar þar sem fjölmargar innlendar og erlendar stjörnur munu stíga á svið.
Hátíðin fer fram á lengsta degi ársins, þann 21. júní. Á meðal erlendra gesta sem munu stíga á svið eru Jamie XX, Da La Soul, Mos Def, Mobb Deep og Joy Anonymous. Þá munu innlendar stjörnur á borð við Gugusar, Saint Pete, Insector Spacetime, GDRN, Hildur, B-Ruff, Klaves og Fingerprint einnig stíga á stokk.
„Í hjarta Laugardalsins verður sett upp stórt bar- og hjólabrettasvæði ásamt risa matarsvæði með matarvögnum sem munu bjóða upp á kræsingar úr öllum áttum í samstarfi við Götubitann,“ segir í tilkynningu um hátíðina.
Menningarhreyfingin Liveproject stendur fyrir hátíðinni en hreyfingin hefur meðal annars haldið Götubitahátíðina síðastliðin ár.