Blaðamaður fær heldur betur hlýjar og góðar móttökur þegar hann gengur inn á heimili þeirra VÆB-bræðra, Hálfdáns Helga og Matthíasar Davíðs, í Kópavoginum.
Heimasætan á bænum, Hjördís Anna, tvíburasystir Hálfdáns, kemur brosandi upp stigann með tvo hunda í taumi en á heimilinu búa ekki bara foreldrarnir, tónlistarhjónin Matthías V. Baldursson og Áslaug Helga Hálfdánardóttir, ásamt börnum sínum fjórum, þeirra yngstur Magnús Hinrik, heldur búa þar líka tvö tengdabörn og nokkrir fjórfætlingar, tveir hundar og tveir kettir.
Þá eiga bræðurnir einnig tvö eldri hálfsystkini, þau Baldur Snæ og Guðrúnu Thelmu Matthíasarbörn, sem flutt eru að heiman. Það er því sannarlega líf og fjör á þessu átta manna heimili þar sem tónlistin og gleðin ræður ríkjum.
Á morgun, 2. maí, halda þeir Matthías, oftast kallaður Matti eða litli-VÆB, og Hálfdán, stóri-VÆB, út til Basel í Sviss ásamt stórfjölskyldu sinni þar sem þeir munu stíga á svið, fyrstir allra á fyrra úrslitakvöldinu, þann 13. maí, fyrir Íslands hönd í Eurovision með lagið „Róa“.
Segja þeir mikinn heiður að fá að opna Eurovision þetta árið eins og þeir orða það svo skemmtilega.
„Fyrstu orðin á Eurovision í ár verða „Let's Go!“ Við elskum að fá að vera fyrstir. Það er svo gott að fá að klára að gera sitt og slaka svo bara á og njóta kvöldsins og sjóvsins. Þá ertu ekki endalaust að bíða allt kvöldið eftir að stíga á svið,“ segir Hálfdán og Matti tekur undir hvert orð.
„Við erum svo sáttir, þetta verður æðislegt,“ segir hann.
Inntir eftir því hver leiðin að slíkum árangri sé, þ.e. að ná svo ungir að árum að sigra í Eurovision hér heima, segja þeir hana einna helst liggja í gleðinni.
„Við unnum bara af því að gleðin skein í gegn,“ segir Matti og Hálfdán kinkar kolli til samþykkis.
„Við kepptum líka í fyrra og þá gekk rosalega vel en við lentum í fjórða sæti í úrslitunum. Út frá því fórum við að gigga allt sumarið og vorum bókaðir út um allt. Ég held að það hafi líka hjálpað okkur með sigurinn í ár. Við vorum nánast búnir að hitta alla krakka á Íslandi og pössuðum vel upp á að allir sem vildu fengju myndir með okkur. Eftir giggin biðu krakkar í röð í næstum einn og hálfan tíma til að fá myndir með okkur og við gáfum okkur alltaf tíma í það. Svo snýst þetta bara um að hafa gaman,“ segir hann.
„Gleðin er lykillinn að öllu,“ skýtur þá Matti inn í brosandi.
Þeir Matti og Hálfdán hafa haft nóg að gera síðan þeir unnu keppnina hér heima og segjast varla trúa því hversu stutt sé í keppnina sjálfa.
„Þetta fer alveg að skella á og við erum orðnir gríðarlega spenntir. Við verðum aldrei stressaðir þegar við komum fram en spenna og stress er í rauninni svipað konsept. Maður þarf bara að passa að rugla þessu tvennu ekki saman og velja hvort maður vill. Það er nauðsynlegt að hafa stjórn á hausnum,“ segja þeir samtaka.
Spurðir í framhaldinu hvernig þeir ætli að búa sig undir stóra daginn segjast þeir fyrst og fremst ætla að passa upp á svefninn þar sem hann sé það mikilvægasta af öllu.
„Já, og muna að borða. Það eru þessar grunnþarfir sem þarf að passa upp á. Svo tökum við raddæfingar og slíkt. Þetta verður geggjað. Við erum með þvílíkt stuðningslið sem fer með okkur út, stórfjölskylduna og vinina. Nú er markmiðið bara að komast á sjálft úrslitakvöldið,“ segir Hálfdán.
„Já, ekki spurning,“ segir Matti og nefnir í kjölfarið að atriðið sjálft verði stórkostlegt. „Þetta verður þvílík uppfærsla. Alveg nýir búningar og glæný og geggjuð grafík enda er sviðið miklu stærra þarna úti en hér heima. Atriðið verður tíu sinnum stærra. Við segjum því bara: fáið ykkur sæti og spennið beltin. Já, og fáið ykkur popp og kók og hafið það kósí.“
Hálfdán tekur undir og bætir við að fyrst og fremst eigi fólk að njóta og hafa gaman af lífinu. „Það er það eina sem skiptir máli. Maður á alltaf að hugsa jákvætt. Vera góður við alla og koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig. Það er gullna reglan!“
Nefna þeir að lokum að fram undan séu tónleikar og ný lög. „Við lofum áframhaldandi bullandi stemningu enda von á risatilkynningu frá okkur eftir Eurovision.“
Lengri útgáfu af viðtalinu má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, fimmtudaginn 1. maí.