Ekki er langt síðan að Strætó bs. byrjaði að taka á móti kortagreiðslum í vögnum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Byggðasamlagið hefur þó enn ekki tekið það skref að taka á móti greiðslum í formi súkkulaðistykkja.
Þetta segir strætóbílstjórinn Össur Valdimarsson í samtali við mbl.is en hann lenti í miður skemmtilegu atviki á dögunum þegar tveir fastagestir í strætisvagni hans reyndu að borga með sitthvoru súkkulaðistykkinu.
Össur segir frá atvikinu í færslu á Facebook-hópnum Strætó bs. Lof og last og birtir með henni mynd af súkkulaðistykkjunum sem hann endaði á að taka við þrátt fyrir að það væri honum þvert um geð.
„Það var stutt í að vaktin mín væri að klárast og þau koma þarna upp í Spöng. Ég var ef til vill ekki alveg nógu vel vakandi yfir þessu en tel mig samt vera einn af hörðustu bílstjórum bæjarins, ég læt fólk ekki komast upp með eitt né neitt,“ segir Össur.
Hann segist aldrei hafa lent í neinu sambærilegu á 20 ára ferli sínum sem strætóbílstjóri og varð því algjörlega kjaftstopp þegar farþegarnir buðu honum greiðsluna í formi súkkulaðistykkja.
Össur endaði á að meta ástand farþeganna sem svo að best væri að hleypa þeim inn í vagninn. Hann mun þó ekki leggja það í vana sinn.
„Súkkulaðistykki eru alls enginn gjaldmiðill,“ segir Össur og bætir við að hann hafi látið súkkulaðistykkin alveg vera síðan enda séu þau ekki eign hans heldur Strætó bs.
Þá tekur Össur fram að hann reyni alltaf að vinna sitt starf vel og taka spjallið við fólk þegar það reynir að svindla sér inn í strætó, til að mynda þegar fólk á þrítugsaldri reyni að koma sér upp í vagna með unglingamiða.
Hann segir þó að það heyri til undantekningartilfella að farþegar séu með slíkt vesen.
„Meirihlutinn af þeim farþegum sem koma eru mjög ánægðir, koma alveg hreint brosandi inn í vagninn og borga annaðhvort með símanum, debetkorti eða klinki.“