Heimsókn kanadísku poppstjörnunnar Justins Biebers til Íslands virðist nú lokið að þessu sinni.
Bieber hefur verið á landinu frá því í lok síðasta mánaðar og hefur hann dvalið á sveitasetrinu Deplar Farm í Fljótunum á Tröllaskaga, ef marka má Instagram-síðu hans.
Hefur hann meðal annars varið stundum sínum í hljóðveri en hann vinnur hörðum höndum að nýrri breiðskífu.
Samkvæmt heimildum mbl.is sást Bieber í Skógarböðunum í dag og fékk hann sér svo ís í Leiru.
Í kvöld steig hann upp í einkaþotu á Akureyrarflugvelli með nýstimplað vegabréf en þotan flýgur nú í vesturátt frá ströndum Íslands.
Bieber hefur ferðast hingað oftar en einu sinni. Hann tók upp tónlistarmyndband við lagið I'll Show You árið 2015 og sneri aftur tæpu ári síðar og hélt tvenna tónleika í Kórnum í Kópavogi.