Bakarinn og listamaðurinn, Jóhannes Felixson eða Jói Fel eins og hann er kallaður, er kominn með nýja vinnu. Hann verður sumarafleysingakokkur í fangelsinu á Litla Hrauni þar sem kærasta hans, Kristín Eva Sveinsdóttir, er nýráðin forstöðumaður.
„Konan mín er orðin forstöðumaður á Litla Hrauni. Þegar hún sá þetta auglýst hugsaði hún: „þetta er akkúrat fyrir mig“. Hún er lögreglukona, hún er hjúkrunarfræðingur og er með meistarapróf í áfalla- og krísustjórnun. Hún bara datt þarna inn. Hún er búin að vera þarna núna í rúman mánuð. Svo var auglýst eftir matreiðslumanni í afleysingar í sumar og mér leiðist svo hérna heima stundum. Þannig að ég bara sótti um og hún skipti sér ekkert af því,“ sagði Jói Fel í viðtali við Völu Matt á Stöð 2.