Jón Þór Birgisson, einnig þekktur sem Jónsi úr hljómsveitinni Sigur Rós, hefur í auknum mæli verið að hasla sér völl innan myndlistarinnar. Í síðustu viku opnaði hann sýninguna VOX í Kunstsilo í Kristiansand í Noregi. Þetta er í fyrsta sinn sem Jónsi sýnir í Noregi og í fyrsta sinn sem samnefnt verk er sýnt í Evrópu en það var frumsýnt í Los Angeles árið 2023 í Tanya Bonakdar Gallery. Sýningarstjóri er Karl Olav Segrov Mortensen.
Blaðamanni Morgunblaðsins var boðið á opnun sýningarinnar þar sem var mikið fjölmenni og blaðamenn mættir frá löndum á borð við Bretland, Þýskaland, Austurríki og Danmörku til þess eins að ná tali af Jónsa. Þess má til gamans geta að breski blaðamaðurinn var hokinn af reynslu þegar kemur að stórstjörnum en hann hafði tekið viðtöl við allar helstu stjörnur heims og er auk þess draugahöfundur ævisögu Phils Collins, Not Dead Yet. Daginn eftir opnunina var sá blaðamaður rokinn til þess að taka viðtal við söngvarann Robbie Williams. Þetta gefur kannski ákveðna hugmynd um frægð Jónsa, en það var kannski löngu vitað.
Jónsi var með sýninguna Flóð í Listasafni Reykjavíkur í fyrra en fyrir hana var Jónsi tilnefndur til Íslensku myndlistarverðlaunanna. VOX er afar frábrugðin þeirri sýningu en gengur þó út á að virkja öll skilningarvitin. Gengið er inn í almyrkvað herbergi þar sem búið er að koma fyrir fjórum LED-skjáum sem umlykja sýningargesti og varpa frá sér hvítu ljósi í takt við síbreytilega rödd Jónsa.
„Þessi sýning byggist fyrst og fremst á röddinni, elsta hljóðfærinu í heiminum, en ég nota LED-skjái, hljóð og lykt til þess að magna upplifunina,“ segir Jónsi. „Titillinn þýðir rödd en öll hljóðin sem maður heyrir á sýningunni eru röddin í mér sem kann að hljóma eins og ég sé „ego-maniac“,“ segir Jónsi og hlær.
„Vinur minn í Los Angeles hjálpaði mér að forrita röddina þannig að hún umbreytist í ljósbylgjur. Þá eru 50 hátalarar í salnum sem umkringja mann og bekkur fyrir miðju sem hægt er að setjast á og upplifa verkið en inni í bekknum er bassi. Þá má þar einnig finna lykt sem ég hannaði. Með lyktinni leitast ég við að fanga það hvernig röddin, þegar við tölum eða syngjum, nær beint að hjartarótum. Þetta eru því ákveðnar rótar-lyktir, eins og til dæmis af vetiver-rót sem er uppáhaldslyktin mín, auk tilbúinna ilmolía og þetta er því blanda af 40 mismunandi efnum sem dælt er út í rýmið,“ segir Jónsi en mikil vinna liggur að baki sýningunni og að mörgu er að huga.
„Þetta er langt ferli, það þarf að hanna sýninguna sem er mjög tæknileg og flókin í uppsetningu. Þá þarf einnig að búa til ilminn og hljóðverkið sem er 25 mínútur og samanstendur af fimm mismunandi köflum. Þá er allt smíðað hér á staðnum. Þetta er svolítið vesen og ég er ekki viss um að söfnunum líki við það en þetta endar alltaf með því að vera skemmtilegt.“
Athygli vekur að Jónsi notar röddina á margvíslegan hátt í verkinu, meðal annars með aðstoð gervigreindar.
„Ég nota röddina á marga vegu. Í verkinu er hún lífræn, hrein og bein, en líka stökkuð upp eins og í kór, henni snúið við, brengluð og dregin út og suður. Í raun er alls konar bjögun í gangi. Þá notast ég líka við gervigreindarforrit sem spýtir út úr sér mismunandi útgáfum af röddinni minni.“
Þeir sem sjá VOX upplifa verkið á margvíslegan hátt. Sumir segja upplifunina vera eins og að ganga inn í geimskip á meðan aðrir nefna næturklúbb eða eitthvað háfleygara.
Hvernig upplifun ertu að reyna að skapa með innsetningunni?
„Maður er fyrst og fremst að þessu fyrir sjálfan sig. Mig langar að hreyfa við mér og finna fyrir einhverju. Þar er upphafspunktur minna innsetninga, að hreyfa við fólki. Fram að þessu hef ég ekki verið í neinum tilvistarlegum hugleiðingum því þegar maður skapar tónlist þá er allt svo hreint og beint. Allt flæðir í gegnum okkur og tónlistin er eins og galdur sem má ekki kryfja of mikið. Myndlistin virkar öðruvísi, sem er skemmtileg áskorun fyrir mig. Maður skapar eitthvað og fer ósjálfrátt að hugsa af hverju og hver tilgangurinn sé, tilvistarlegar spurningar sem eru hollar fyrir mann. En kannski þarf ekki endilega að kryfja allt. Stundum standa hlutirnir bara eins og þeir eru og fólk skynjar þá á sinn hátt.“
Jónsi er ekki hættur í tónlistinni. „Við erum á leið til Ástralíu að spila þar og förum svo á tónleikaferðalag um Evrópu með ýmsum sinfóníuhljómsveitum svo fátt eitt sé nefnt. Mér þykir svo vænt um Sigur Rós og hún er eins og fjölskylda.“
Maria Mediaas Jørstad forstjóri Kunstsilo segir Jónsa skapa list sem höfði til margra.
„Jónsi er frábær listamaður og manneskja. Það er okkur mikill heiður að fá hann til okkar. Hann kemur með svo mikla og jákvæða orku bara með nærveru sinni þannig að þetta er frábær reynsla. List hans á vel við á þessu safni því við viljum beina sjónum að því sem er að gerast í norrænu listasenunni og þar liggja áherslur safnsins. Þá er listin hans aðgengileg fyrir alla, óháð aldri og þjóðfélagsstöðu. Maður þarf ekki að vera fróður um listir til þess að geta notið upplifunarinnar,“ segir Jørstad en sýningin VOX stendur til 12. október.
Kunstsilo í Kristiansand var opnað árið 2024 og hefur á stuttum tíma hlotið ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar. Nú síðast var það valið á lista Prix Versailles yfir sjö fegurstu söfn heims árið 2025.
Versailles-verðlaunin eru afhent í höfuðstöðvum UNESCO í París og er markmiðið með þeim að heiðra nýstárleg og sjálfbær verkefni í samtímaarkitektúr. Dómnefndin leggur mat á nýsköpun, staðbundna tengingu, sköpunargáfu og samfélagsleg áhrif. Tilnefningin gerir safninu einnig kleift að keppa um aðalverðlaun Prix Versailles, auk sérstakra heiðursverðlauna fyrir bestu innanhúss- og utanhússhönnun. Tilkynnt verður um úrslitin í desember, segir í tilkynningu.
Safnið hefur einnig verið tilnefnt til verðlaunanna Museums + Heritage Awards 2025 í flokknum „Best Use of Digital – International“ fyrir stafræna umlykjandi upplifun sem byggð var á málverkinu „Tivoli“ eftir Reidar Aulie. Úrslit verða kynnt 15. maí. Þess má geta að Kunstsilo hefur einnig lent á lista yfir heimsins bestu staði til að heimsækja bæði í Timeog New York Times.
Kunstsilo er í gamalli kornverksmiðju frá 1930 sem hefur verið breytt í safn. Sjá má móta fyrir sívölu formi korngeymslnanna í loftinu en leitað var til arkitektanna Magnusar Wage, Mendoza Partida og BAX studio og hefur byggingin sjálf einnig hlotið lof og viðurkenningar.
Innan Kunstsilo eru þrjú listasöfn: Tangen-safnið, Sørlands-safnið og Christiansands Billedgalleri, með samanlagt yfir 8.000 listaverk. Tangen-safnið geymir stærsta safn heims af listaverkum úr norrænum módernisma, eða um 6.500 verk sem spanna tímabilið frá 1910 til 1990, þar af er 31 eftir íslenska listamenn á borð við Ásgerði Búadóttur, Sigurð Guðmundsson og Sigurjón Ólafsson.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.