Að horfa á tímann líða er kannski ekki upplifun sem maður myndi halda að væri eftirsóknarverð en þetta er þó í meginatriðum útgangspunktur vídeólistaverksins „The Clock“ eftir Christian Marclay sem nú er til sýnis á samnefndri sýningu í Listasafni Íslands. Verkið hefur hlotið mikið lof um allan heim, hlaut Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum árið 2011 og stutt er síðan gagnrýnandi The Washington Post nefndi það eitt besta myndlistarverk 21. aldar.
Margir hafa lýst verkinu sem ávanabindandi en það er samansett úr mörg þúsund stuttum myndbrotum úr hinum og þessum kvikmyndum. Verkið er 24 tíma langt og hefur Marclay fundið hverja einustu mínútu sólarhringsins í kvikmyndum héðan og þaðan og púslað þeim saman á áhrifaríkan hátt.
„Þetta byrjaði sem hugmynd en varð síðan að þráhyggju sem varði í þrjú ár. Fyrsta árið fór að mestu í að kanna hvort þetta væri yfirhöfuð gerlegt. Ég réð til mín aðstoðarfólk sem hafði það að starfi að horfa á kvikmyndir og finna vísanir í tímann. Mitt hlutverk var svo að koma skipulagi á myndbrotin, setja þau saman og búa til tímalínu. Þetta verður að áráttu hjá manni en maður þarf að finna hverja mínútu í deginum. Það vantaði kannski mínútu hér og þar og ég þurfti að finna hana. Þá fór líka öll hljóðvinnsla fram eftir á. Undir lokin reyndi þetta mikið á en ég var búinn að lofa galleríi að sýna verkið á ákveðnum tíma og þurfti því að leggja mig allan fram að klára í tæka tíð. Þetta var erfitt en mjög skemmtilegt.“
Eins og titill verksins gefur til kynna gegnir tíminn lykilhlutverki og vekur hugleiðingar um hversu háð við erum honum. Verkið var frumsýnt 2010 og er því 15 ára gamalt en á samt enn erindi við okkur í dag. Myndbrotin eru stutt og grípandi, rétt eins og á samfélagsmiðlum, og halda þannig stöðugt athygli áhorfenda, jafnvel klukkustundum saman.
„Eitt af því sem ég hafði áhyggjur af var hvernig „The Clock“myndi eldast og hvort það myndi halda áfram að höfða til fólks. Þegar ég vann að verkinu voru snjallsímarnir komnir en fólk ekki að nota þá jafnáráttukennt og viðgengst í dag. Nú erum við alltaf í símanum, meðvituð um hvað tímanum líður og fáum stöðugt upplýsingar um það sem er að gerast í lífi okkar eða annarra. Tæknin leyfir ekki huganum að reika eða að gleyma sér í stundinni. Ég hafði líka áhyggjur af yngri kynslóðinni en verkið virðist líka höfða til þeirra þó þau þekki ekki til allra kvikmyndanna. En það gefur þeim líka visst frelsi umfram þá sem þekkja alla leikarana. Þeir verða þá síður fyrir truflun eigin minninga. En þeir sem eldri eru virðast þurfa meira að rifja upp hvaðan þessi eða hin klippan sé. Hinn ungi áhorfandi getur frekar sleppt tökunum, horft á flæði myndbrotanna og fundið fyrir samhenginu, því minnið er ekki að trufla upplifunina.“ Spurður út í viðtökurnar verður Marclay afar hógvær. „Það er gaman að fá lof því það er ekki sjálfgefið en ég veit ekki hvort þessi dómur muni standast tímans tönn því tíminn er harður gagnrýnandi og það er eflaust margt betra til í heiminum en mitt verk.“
Hefur skilningur þinn á tímanum breyst eftir að hafa unnið að verkinu?
„Nei, í raun ekki. Ég er haldinn sama kvíða og hver annar um það hversu lítinn tíma maður hefur og hversu stutt lífið er. Ég segi alltaf að ég hefði ekki gert þetta verk meðan ég var ungur, því þá hugsar maður ekki um tímann með sama hætti og nú. Að horfa á tímann líða með svona bókstaflegum hætti skapar líka áhugaverða spennu og er mjög ólíkt því að horfa á kvikmyndir sem venjulega taka mann úr rauntíma og inn í tilbúinn heim þar sem maður missir allt tímaskyn. Í sumum myndum er teygt úr tímanum eða hann samþjappaður en hér veit maður nákvæmlega hvað tímanum líður og engu máli skiptir hvenær maður kemur eða fer,“ segir Marclay sem lagði mikla áherslu á að upplifunin yrði sem best og ákveðnar reglur gilda um hvernig sýna eigi verkið. Ekki er hægt að horfa á verkið annars staðar en á safni og aðeins má nota ákveðna tegund af IKEA-sófum.
„Ég valdi þessa tilteknu sófa því þeir voru ódýrastir en líka þægilegir. Þá hef ég skipulagt uppröðun þeirra þannig að maður er frjálsari að koma og fara án þess að trufla heilu raðirnar af fólki. Öll upplifunin á að vera góð. Það gerist oft þegar maður sér innsetningu á listasafni að maður veit aldrei hvort maður hafi komið inn á réttum tíma, hvað mikið er eftir, hvort maður þurfi að vera allan tímann. Það getur verið mjög óþægileg upplifun að sýna verk sem er háð tíma. Eins vil ég að þetta sé reynsla sem við deilum líkt og í kvikmyndahúsum. Upplifunin er ekki sú sama og að horfa bara á þetta á litlum skjá heima hjá sér, hvað þá hér á Íslandi að vera t.d. að horfa á nætursenurnar með miðnætursólina skínandi inn um gluggann.“
Eitt af því sem er áhugavert við „The Clock“ en á sama tíma svo augljóst, ef út í það er farið, er hvernig senurnar taka mið af mismunandi tímum dags en á nóttunni eru til dæmis draumar mjög áberandi.
Hver er þinn uppáhaldstími í verkinu?
„Ég hef mest gaman af senum sem gerast árla morguns eða eftir klukkan fimm. Það er svo áhugavert að sjá hvernig líf hefst að nýju eftir nóttina,“ segir Marclay en þess má geta að blaðamaður tók hann á orðinu og fór að sjá verkið klukkan sex að morgni þegar safnið var opið allan sólarhringinn. Eðli málsins samkvæmt gegndu vekjaraklukkur þar stóru hlutverki, fólk var ýmist á hlaupum, orðið of seint í skóla eða vinnu eða að vakna upp eftir gjálífi næturinnar. Þá má vekja athygli á því að klukkan 8:22 má sjá eftirminnilegt atriði úr kvikmyndinni Planes, Trains and Automobiles með þeim John Candy og Steve Martin. Þar vakna þeir, tveir gagnkynhneigðir karlmenn, í faðmlögum. Martin spyr Candy hvar hin hönd hans sé og Candy svarar að hún hvíli á milli tveggja kodda. Framhaldið skal hér látið ósagt en þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um hvernig upplifa má rómaðar senur úr kvikmyndasögunni á rauntíma.
Marclay segist ekki vita hversu margar kvikmyndir liggi að baki verkinu.
„Nei, mér finnst fjöldinn ekkert áhugaverður í sjálfu sér en maður getur fengið grófa hugmynd ef maður lítur til þess að það eru um 1.440 mínútur í deginum og það er a.m.k. ein klippa á mínútu. Sumar eru úr sömu myndinni en stundum eru margar klippur á sömu mínútunni eins og þegar klukkan slær tólf á miðnætti,“ segir Marclay sem segir að ekki allar kvikmyndir vísi í tíma.
„Það eru helst fantasíu-kvikmyndir þar sem ekki er að finna vísun í tíma. Ég var búsettur í London þegar ég vann að verkinu þar sem er mjög mikil indversk menning og ég hélt að ég myndi geta notað mikið af Bollywood-myndum en svo reyndist ekki vera þar sem þær eru að miklu leyti um fantasíur og eiga sér síður stoð í raunveruleikanum eins og aðrar og því óháðar tíma.“
Aðspurður hvort gervigreind gæti unnið verk sem þetta segir Marclay svo ekki vera. „Hún hefði mögulega getað hjálpað mér við leitina og ég hefði þá kannski ekki þurft að ráða sex aðstoðarmenn til að horfa á kvikmyndir en verkið snýst líka um mína eigin áráttu um ákveðna hluti á borð við síma og plötuspilara svo dæmi sé tekið. Þá skipti máli að fyrir tíu árum gat maður farið í búðir og myndbandaleigur og fundið fágætt efni. Nú er staðan önnur og gæði þeirra mynda sem hægt er að finna á netinu eru minni. Ég held því að það sé bara ekki hægt að búa til þetta verk í heiminum sem við lifum í í dag.
Gæti gervigreindin komið í staðinn fyrir listamanninn?
„Það veltur á ýmsu en fyrir mitt leyti er hún bara tól til að gera hluti. Maður þarf alltaf að hafa skoðanir, eigin vinkil, og vinna út frá persónulegu sjónarhorni. Mögulega eru einhverjar hættur en ég reyni að vera jákvæður gagnvart tækninni og trúi því að listamenn séu kannski það eina sem gervigreindin geti ekki komið í staðinn fyrir. Listamenn eru góðir í að gera skapandi mistök sem vélmenni geta ekki,“ segir Marclay en sýning hans The Clock stendur til 22. júní og næsta sólarhringssýning verksins verður 21. júní, frá kl. 10 til kl. 10 þann 22. júní.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.