Sænska heimildarmyndin Den sista resan, eða Síðasta ferðalagið, fjallar um aldraðan mann sem misst hefur lífsviljann og tilraunir sonar hans til að gleðja föður sinn og fá hann til að njóta lífsins á ný. Sá gamli, Lars Hammar, fæddist árið 1942 og var áður lífsglaður og litríkur frönskukennari en nú er öldin önnur. Í byrjun myndar situr hann aðgerðalaus í hægindastól og starir út í tómið. Eiginkona hans, Tina, og sonur þeirra, Filip, hafa miklar áhyggjur af Lars og grípur Filip til þess ráðs af fara með föður sinn í ferðalag á fornbíl sömu gerðar og Lars átti þegar Fillip var ungur drengur, Citroën-„bragga“. Feðgarnir leggja í hann og með í för er góðvinur Filips, Fredrik nokkur Wikingsson. Tekst þeim Filip og Fredrik að endingu að minna þann gamla á að lífið sé alltaf þess virði að lifa því og hafi enn upp á margt að bjóða þótt á brattann sé að sækja, komið að ævikvöldi og heilsunni farið að hraka.
Þeir Filip og Fredrik eru á svipuðum aldri, rétt komnir yfir fimmtugt og hafa til fjölda ára notið vinsælda í Svíþjóð sem kynnar í sjónvarpsþáttum en hófu feril sinn í fjölmiðlum sem blaðamenn. Síðasta ferðalagið er þeirra fyrsta heimildarmynd og sú tekjuhæsta frá upphafi af slíkum kvikmyndum í Svíþjóð. Naut myndin afar mikilla vinsælda í Svíþjóð þar sem hún var frumsýnd í fyrra og hefur verið sýnd síðan víðar um lönd og sömuleiðis við góðar undirtektir.
Og nú er komið að Íslandi, sýningar þegar hafnar í Bíó Paradís og var Fredrik Wikingsson viðstaddur frumsýningu myndarinnar 30. apríl sl. og sat fyrir svörum en blaðamaður ræddi við hann í síma fyrr um daginn, þá nýbúinn að sjá myndina.
„Ég er sá með persónutöfrana, sá hávaxni og myndarlegi sem fer með vini sínum í ferðina,“ segir Fredrik glettinn í upphafi samtals en þá hefur blaðamaður farið mannavillt og haldið að hann væri með Filip í símanum. Fredrik skal það vera og segir hann algengt að fólk ruglist á þeim félögum.
Samstarf þeirra Fredriks og Filips hófst á dagblaðinu Aftonbladetum miðjan tíunda áratuginn og segir Fredrik að þeir hafi fljótlega orðið bestu vinir. „Við fórum að skrifa í sameiningu lengri greinar og töldum að gaman væri að gera heimildarefni fyrir sjónvarp. Við fórum að vinna í sjónvarpi upp úr árinu 2002 eða 2003 og höfum gert sjónvarpsefni og kvikmyndir æ síðan,“ segir Fredrik.
Hann er spurður að því hvers vegna þeir félagar hafi ákveðið að gera þessa heimildarmynd, Síðasta ferðalagið. „Þetta hófst með því að Fillip vildi gera eitthvað fyrir pabba sinn og ég hef þekkt hann jafnlengi og Fillip sjálfan, í um 30 ár. Ég hef líka fylgst með því hversu þungur Lars varð á geði eftir að hann settist í helgan stein. Þegar Fillip sagði mér frá því að hann ætlaði að fara með hann í þessa ferð datt mér strax í hug að við gætum fest hana á filmu. Að hér væri komið efni sem ætti erindi við heimsbyggðina,“ segir Fredrik. „Þetta hófst sem björgunarleiðangur og varð á endanum kvikmynd.“
Þetta er alvarlegt umfjöllunarefni, aldraður maður sem virðist hafa misst lífsviljann en þið nálgist það nokkuð spaugilega …
„Já, ég held að okkar uppáhaldsheimildarmynd sé The Act of Killingsemfjallar um þjóðarmorð þannig að umfjöllunarefni hennar er mjög alvarlegt. Hún er ein galnasta kvikmynd sem ég hef séð en samt sem áður er hún frábær. Hún veitti okkur mikinn innblástur og þótt myndin okkar hafi ekki orðið jafngóð reyndum við að taka fyrir alvarlegt efni og skemmta áhorfendum um leið,“ svarar Fredrik. Faðir Filips sé fyndinn maður og það hafi hann viljað að kæmi fram í myndinni líka.
Nokkur atriði eru leikin og þeirra á meðal eitt bráðfyndið. Í því sjást tveir Frakkar rífast heiftarlega um bílastæði, karl og kona, og endar rifrildið með því að konan slær manninn í andlitið. Þetta atriði er leikið eftir lýsingu Lars á atburði sem hann varð vitni að í Frakklandi fyrir nokkrum áratugum, þá ungur maður. Fredrik segir að Filip hafi komið með þessa hugmynd, að láta gamla manninn upplifa svipaðan atburð en þó ekki í þeim tilgangi að hrekkja hann heldur búa til eins ánægjulega upplifun og mögulegt væri.
Den sista resan naut mikillar aðsóknar í Svíþjóð, meiri en Dune: Part 2 og segir Fredrik ástæðuna líklega að margir eldri Svíar fari í bíó og tengi við efni myndarinnar. „Hún er skemmtileg og fyndin en það gráta líka margir yfir henni því hún er líka mjög sorgleg. Það er eitthvað þarna sem fólk tengir við,“ segir hann. Spurður út í aðalboðskap sögunnar, hvort einhverja lexíu megi læra af henni, segir hann að líklega sé hann sá að meta fólk eins og það sé, ekki eins og það hafi verið á árum áður.
Í myndinni eru nokkur hjartnæm augnablik, m.a. eitt undir lokin sem sýnir fyrrverandi nemendur gamla mannsins votta honum virðingu og sýna honum væntumþykju. Sá gamli kemst við og sonurinn grætur í þessu tilfinningaþrungna atriði. Fredrik segir að þeir hafi gætt þess við klippingu myndarinnar að leyfa atriðinu að njóta sín vel og lengi. Þeir Filip hafi viljað sýna þau miklu áhrif sem Lars hafi haft á nemendur sína. „Hann kenndi í smábæ í fjögur ár og snerti líf svo margra,“ segir Fredrik frá.
Það er heldur betur góður árangur hjá ykkur félögum að eiga tekjuhæstu innlendu heimildarmyndina í sögu Svíþjóðar. Áttuð þið von á slíkri velgengni?
„Neineinei. Ég var mjög smeykur þegar við byrjuðum að gera hana, smeykur um að enginn myndi vilja sjá hana því hún væri of persónuleg,“ svarar Fredrik. Að öllum myndi standa á sama um myndina og þá feðga. „En í því persónulega er hægt að snerta á einhverju sammannlegu,“ bætir Fredrik við og að gott gengi myndarinnar hafi komið ánægjulega á óvart, vægast sagt, og hversu vel fólki tengi við efni hennar óháð uppruna og menningu. Þá sé ekki síður ánægjulegt að myndin hafi hlotið verðlaun, m.a. hin sænsku Guldbagge. Rúsínan í pylsuendanum hafi svo verið enn nánara samband þeirra feðga.
Þess má geta að dómur um myndina er birtur á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, laugardag.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.