Bók sem lánuð var út af bókasafni Kópavogs fyrir rúmlega hálfri öld síðan skilaði sér loksins á dögunum í sektlausri viku. Jón úr Vör mun hafa afgreitt lánþegann þegar bókin var tekin út.
Bókasafnið greinir frá því á Facebook að barnabókin Kata í Ameríku eftir Astrid Lindgren haf skilað sér vikunnu eftir 56 ár í útláni. Bókinni átti að skila 2. júní 1969.
Er þetta lengsta útlán í sögu Bókasafns Kópavogs, að sögn, en í færslunni segir að lánþeginn hafi verið að taka til á háaloftinu þegar bókin kom í leitirnar og auðvitað hafi verið við hæfi að nýta sektarlausu vikuna sem er í gangi 5.-11. maí að tilefni af 70 ára afmæli Kópavogsbæjar.
Það mun hafa verið skáldið Jón úr Vör sem afgreiddi lánþegann þegar bókin var tekin að láni árið 1969 en þá var bókasafnið aðeisn starfrækt í litlu herbergi í Kársnesskóla.
Jón var fyrsti bæjarbókavörður Kópavogsbæjar, en bókasafnið fagnar 72 ára afmæli á árinu.
Fréttin hefur verið uppfærð: Í upprunalegri útgáfu fréttar hafði blaðamaður farið orðavillt og sagt að bókinni hafi verið skilað hálfum áratugi of seint. Hið rétta er að henni var skilað hálfri öld of seint