Bræðrunum Max og Igor Cavalera hefur verið boðið að koma fram á lokatónleikum Sepultura, málmbandsins sem þeir stofnuðu árið 1984, sem fyrirhugaðir eru seint á næsta ári í São Paulo í Brasilíu. Þetta staðfestir gítarleikarinn og hljómsveitarstjórinn, Andreas Kisser, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. Max hætti í fússi í Sepultura 1996 vegna ágreinings og Igor áratug síðar.
„Það verður svakaleg Sepul-veisla, þangað sem aðdáendum okkar og böndum sem eru okkur kær verður stefnt," segir Kisser. „Svo koma vonandi allir fyrrverandi meðlimir Sepultura fram með okkur líka, þeirra á meðal Cavalera-bræðurnir. Við viljum bjóða þeim í veisluna, þrátt fyrir ágreining okkar. Hverjum er ekki sama hver hafði á réttu að standa og hver var í órétti fyrir öllum þessum árum? Þessi veisla er fyrir aðdáendurna.
Leggjum ágreininginn því til hliðar. Fyrir fólkið okkar. Auðvitað sjáum við málin ekki í sama ljósi en hverjum er ekki sama? Komum saman, djömmum og Sepulserum. Einu sinni að lokum. Við lögðum svo hart að okkur til að skapa þessa músík saman og koma henni á framfæri. Þannig að, gerum þetta fyrir aðdáendurna, okkur sjálfa og fjölskyldur okkar! Þetta er einstakt tækifæri til að þakka fyrir okkur.“
– Ertu bjartsýnn á að Max og Igor þiggi boðið?
„Ég veit ekkert um það. Það er undir þeim komið en ég vona það svo sannarlega. Tíminn mun leiða það í ljós.“
Sepultura leikur í fyrsta sinn á Íslandi miðvikudaginn 4. júní. „Ég er mjög spenntur að koma til Íslands. Við höfum farið víða á löngum ferli, heimsótt um 80 lönd, og nú bætist Ísland við þann lista. Okkur hefur lengi langað að koma og þetta á eftir að verða mergjað. Við ætlum að bjóða ykkur upp á það besta frá ferli Sepultura og þetta kemur til með að verða mjög sérstakt kvöld,“ segir Kisser.
Ítarlega er rætt við hann í Sunnudagsblaðinu.