Kántrítónlist er vinsælli en margur heldur og tónlistarmaðurinn Axel Ómarsson hefur haldið merkinu hátt á lofti og meðal annars gefið út 39 lög, þar af 26 frumsamin. Hann heldur 60 ára afmælistónleika með hljómsveit sinni í Lindakirkju laugardaginn 31. maí og hefjast þeir klukkan 20. Sérstakir gestir verða Milo Deering, pedal steel-gítarleikari, og söngkonan Kinsey Rose, sem eru með á nýjustu plötu Axels O, Dallas Sessions – Acoustic Covers, en á henni eru sjö ábreiður af frægum lögum.
Mikill tónlistaráhugi er í fjölskyldu Axels. Hann flutti til Bandaríkjanna þegar hann var 16 ára og bjó þar í tíu ár. „Ég bjó með fjölskyldu minni í Texas og Oklahoma og mótaðist þar, innbyrti þennan kántríáhuga, sem ég tók með mér til Íslands. Ég byrjaði svo að koma fram opinberlega upp úr 2010 og stofnaði hljómsveitina Axel O & Co. 2015.“
Bandið Axel O & Co. byrjaði fljótlega að gefa út lög og kom víða fram heima og erlendis, spilaði meðal annars í Bandaríkjunum og kom tvisvar fram á stærstu kántrítónlistarhátíð Færeyja. Jóhann Ásmundsson leikur á bassa, Dan Cassidy á fiðlu, Ásmundur Jóhannsson á trommur og Sigurgeir Sigmundsson á gítar með fyrrnefndum þremenningum á afmælistónleikunum auk þess sem Michael Lusk syngur bakraddir, en miðasala er byrjuð á netinu (midix.is).
Axel hefur mikil og góð tengsl í Texas, er þar oft og hefur lengi starfað þar með tónlistarmönnum. Þar á meðal er Milo Deering, sem hefur m.a. spilað með The Eagles, Chris Stapleton og LeAnn Rimes, en hann hefur komið að upptökum 24 laga með Axel. „Hann er mjög frægur tónlistarmaður,“ áréttar Axel. „Við gáfum út Dallas Sessions, þar sem við spilum bara tveir með Kinsey Rose sem söngkonu og erum að ljúka við aðra sjö laga plötu, Texas Town, sem kemur út rétt fyrir tónleikana. Allt frumsamin lög.“
Fyrir um fjórum árum gaf Axel út lagið „Here I Wanna Live“ og markaðssetti það í Texas. „Það vakti athygli og ég fylgdi því eftir með öðru lagi, „Montgomery County Moonshine“, sem fór í 50. sæti á vinsældalistanum „Texas Top 75“ í mældri útvarpshlustun og var á listanum í 26 vikur.“
Axel segir að kántrísenan á Íslandi sé mjög vaxandi. „Þegar ég byrjaði þótti kántrítónlist ekki sérstaklega „kúl“, en ég tókst á við þetta, fór í mörg viðtöl og við spiluðum okkar músík. Ég einbeitti mér að því að vera í forsvari fyrir kántrítónlist á Íslandi og allt í einu kántrívæddist heimurinn fyrir um ári. Þegar íslenskir útvarpsmenn sáu hvað var að gerast sneru þeir sér líka að kántrítónlistinni og Bylgjan byrjaði með sérstaka rás eingöngu fyrir kántrílög.“
Sagt hefur verið að kántrítónlist Axels svipi mjög til sömu tónlistar í Bandaríkjunum. „Ég fæ mjög mikla hvatningu og þeir sem kafa djúpt í tónlistina skynja að ég er með ákveðið „sound“ og blæbrigði, sem eru ekki ósvipuð því sem þeir hlusta á frá suðurríkjunum. Ég tek kántríið alla leið.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.