Mæðginin Arnhildur Pálmadóttir og Arnar Skarphéðinsson hjá s. ap arkitektum sýna verk sitt Hraunmyndanir, eða Lavaforming, í Feneyjum en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr. Framtíðarborgir byggðar úr rennandi hrauni úr iðrum jarðar eru meginstefið.
Arnhildur og sonur hennar Arnar eru á þönum að leggja lokahönd á sýninguna Hraunmyndanir þegar blaðamaður slær á þráðinn til Feneyja. Foropnun var á fimmtudag en sýningin var opnuð formlega nú um helgina og verður opin fram í nóvember. Íslendingar og aðrir gestir sem eiga leið um Feneyjar mega ekki missa af innliti í þann framtíðarheim sem mæðginin hafa skapað ásamt teymi s. ap arkitekta sem samanstendur auk þeirra af Björgu Skarphéðinsdóttur og Sukanya Mukherjee. Einnig eru í teyminu Andri Snær Magnason rithöfundur og Jack Armitage tónlistarmaður.
Arnar og Arnhildur fá sér sæti í gluggakistu inni í íslenska skálanum í Feneyjum og taka sér smá hvíld frá uppsetningu sýningarinnar til að spjalla við blaðamann. Inn um gluggann flæðir sólarljósið, en sólin er farin að skína eftir nokkuð köflótta daga.
„Við komum hingað fyrir tveimur vikum til að setja upp, við sýnum kvikmynd og erum svo með heilan vegg af skjáum en á þeim eru upplýsingar, til að mynda um vísindalegar rannsóknir á bak við það sem við erum að gera. Þar er nánari lýsing á þeim heimi sem við erum að skapa en verkið snýst um framtíðarborg, Eldborg, þar sem öll mannvirki og innviðir eru búnir til úr rennandi hrauni. Andri Snær hefur búið til karaktera og skrifað sögur fólks sem býr í þessum heimi árið 2150,“ segir Arnhildur og útskýrir að sögur Andra Snæs séu eins konar nostalgíusögur fólks eins og þær væru skrifaðar af fólki á árinu 2150 sem er að rifja upp eldri tíma, hvernig Eldborgin byggðist upp.
„Þetta er nostalgía frá framtíðinni um okkar framtíð,“ segir Arnar.
„Sýningin er í raun yfirlit yfir allt sem við höfum verið að gera síðustu ár. Við erum líka með efnisprufur og þær mynda skúlptúr sem sýnir tilraunir með eiginleika hrauns, hvernig það bráðnar og fleira sem við höfum gert í samstarfi við Lava Show í ofni þeirra úti á Granda,“ segir Arnar.
„Basalt getur nýst sem byggingarefni í stað þess efnis sem við notum í dag og er mjög mengandi,“ bætir Arnhildur við.
„Hugmyndin kviknaði um 2018 þegar við ræddum um það gríðarlega magn hrauns sem kom upp úr jörðinni í eldgosinu í Holuhrauni 2014-2015. Við fórum þá að velta fyrir okkur hvort hægt væri að nota hraunið beint sem byggingarefni í fljótandi ástandi í stað þess að mylja það niður, blanda aftur í það sementi með orkufrekum og mengandi aðferðum. Við bárum svo magn hraunsins saman við magn steypu sem var og er notuð sem byggingarefni. Ísland er ekki auðugt að efnum sem hægt er að nota til að reisa mannvirki og við fórum að hugsa hvað við gætum gert úr þessu efni sem kemur beint úr iðrum jarðar. Innblásturinn er náttúran sjálf sem býr til alls konar form og myndanir. Þetta er að sama skapi ádeila á mannvirkjagerð á tímum loftslagsbreytinga og þau kerfi sem við höfum því tengd,“ segir hún.
Væri hægt að nýta hraunrennsli í raun og veru til byggingar eða er þetta eins konar konseptlistaverk?
„Við hugsum um það á báða vegu. Hugmyndin er áhugaverð og þótt hún verði ekki endilega að veruleika í alvöru þá vekur hún svo margar spurningar, til dæmis um eignarhald á efninu. Ef við myndum búa til byggingar úr hrauni, vakna spurningar um hver á hraunið og þá borgina sem væri byggð úr hrauninu. Þetta eru spurningar sem hafa horfið úr arkitektúr því við erum svo vön að mannvirki séu notuð sem fjárfestingartækifæri,“ segir Arnar.
„Hin hliðin er svo að prófa þetta í alvöru á vísindalegan hátt, en við teljum að það sé hægt. Það eru dæmi um híbýli mynduð úr hrauni,“ segir Arnar.
„Við sjáum þetta líka í náttúrunni, eins og Dimmuborgir; það er staður sem raunverulega væri hægt að flytja inn í,“ segir Arnhildur og bætir við að tækninni fleygi fram og það sé aldrei að vita hvað hægt verði að gera í framtíðinni. Nú þegar sé verið að stýra hrauni á Reykjanesinu í ákveðna farvegi með byggingu varnargarða.
„Við horfum til framtíðar til að finna leið fyrir okkur til að þróast sem þjóð,“ segir Arnhildur og segir að verkið sé ádeila á byggingariðnaðinn, eignarhald á byggingum, borgarskipulag og umhverfi.
„En allt þetta er fast í ákveðnum kerfum sem eru ekki samfélaginu eða fólki fyrir bestu, heldur eru það aðrir hagsmunir sem stjórna þar ferðinni. Okkur finnst mikilvægt að sýna nýjan heim með aðra fagurfræði og borgarskipulag af því við verðum að breyta kerfum, hvernig efni við notum og hvernig við byggjum ef við ætlum að hafa möguleika á því að lifa af sem tegund á tímum loftslagsbreytinga,“ útskýra þau.
Samstarf mæðginanna gengur vel, en áhugi Arnars á arkitektúr kviknaði snemma og á hann ekki langt að sækja hann. Hann fylgdist vel með mömmu sinni og hennar verkefnum þegar hún var í námi og hann ungur drengur og ákvað síðan að feta í fótspor hennar.
„Mig langaði að skapa heima, og arkitektúr er leið til að vinna að því,“ segir Arnar. Hann endurnýtti einmitt gamlan Star Wars-tölvuleik, en í stað þess að nota byggingar sem voru í leiknum setti hann inn byggingar frá hraunborginni Eldborg og er því hægt að ferðast um hana og spila leikinn.
„Það er svo mikilvægt að hugsa víðar, vinna þverfaglega og nota nýja tækni til að setja fram upplýsingar,“ segir Arnhildur og bætir við að með því að fara út fyrir rammann og búa til eins konar hermiheima megi koma í veg fyrir mistök í byggingariðnaði og borgarskipulagi. Arnhildur segir samstarfið ganga mjög vel og finnst heiður að fá að vinna með syni sínum.
„Það er frábært að hann nenni yfirhöfuð að vera með mér,“ segir hún og brosir.
Er ekki mikill heiður fyrir ykkur að fá að sýna arkitektúr á Feneyjatvíæringnum, fyrst íslenskra arkitekta?
„Jú, þetta er draumur sem rættist. Hér ganga goðin manns í arkitektúr kæruleysislega fram hjá, en hér eru allir bestu arkitektar heims samankomnir. Það er mikill heiður að fá að vera fulltrúi Íslands,“ segir Arnhildur og Arnar tekur undir það.
„Þegar hugmyndin að Lavaforming kviknaði grínuðumst við með að komast á Tvíæringinn með það,“ segir hann.
„Það er mikilvægt fyrir arkitektúr á Íslandi að arkitektar haldi áfram að koma hingað. Það ýtir undir skapandi vinnu og metnað. Við hlökkum til að heimsækja Feneyjar eftir tvö ár og sjá hér aðra íslenska arkitekta sem fulltrúa á Tvíæringnum,“ segir Arnhildur að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.