Nicolas Cage hefur leikið þá nokkra furðufuglana gegnum tíðina og svo virðist sem ný týpa bætist í hópinn í kvikmyndinni The Surfer eftir írska leikstjórann Lorcan Finnegan.
Miðaldra maður, sem kynntur er sem the Surfer, snýr heim til Ástralíu eftir langa fjarveru með það fyrir augum að kaupa æskuheimili sitt sem stendur við fallega strönd. Sonur hans, the Kid, er með í för. Ekkert verið að splæsa um of í flókin nöfn hérna.
Feðgarnir ætla að byrja á því að fara á brimbretti á ströndinni en mæta strax miklu mótlæti frá hópi manna undir forystu gúrúsins Scallys sem slegið hafa skjaldborg um svæðið og vilja ekki sjá neinar slettirekur. Og hvað haldið þið? Í hönd fer ævintýraleg og absúrd atburðarás og þið getið rétt ímyndað ykkur svipinn á Cage gamla þegar mest gengur á þarna í flæðarmálinu. Okkar maður er nefnilega reiðubúinn að leggja allt í sölurnar.
Nýjasta kvikmynd írska leikstjórans Lorcans Finnegans er sálfræðitryllirinn The Surfer með Nicolas Cage í aðalhlutverki. Þar tekst sá annálaði og sérlundaði skapgerðarleikari enn og aftur á við persónu sem ekki bindur bagga sína sömu hnútum og flestir aðrir.
Spurður um það í miðlinum Nerdist hvers vegna hann hafi tekið hlutverk Surfersins að sér kveðst Nicolas Cage hafa tengt við persónuna. „Ég fann til með honum. Hann er í aðstæðum sem við getum öll tengt við sem manneskjur. Við hugsum með okkur: Þetta hús, þessi æskuminning, þessi staður mun gera allt betra. Eða: Leggi ég bara aðeins harðar að mér verð ég þess umkominn að ná þessu öllu til baka. Það var þetta „sturm und drang“ og tilfinning sem höfðaði til mín.“
Cage segir frásagnarmátann einnig hafa heillað sig; hann sé óvenjulegur og skrýtinn af hálfu höfundar myndarinnar. „Þetta er svona saga sem ég sjálfur myndi vilja skrifa. Frásögnin er ólínuleg og með ólíkindum að sagan gerist öll á strönd og á bílastæði. Það er nýtt. Því meira sem ég geri þeim mun meiri áhuga hef ég á því að leita uppi tjáningarform í kvikmyndum sem eru öðruvísi en allt það sem við erum orðin svolítið leið á. Ég var að leita að nýrri frásagnarleið.“
En um leið kallast The Surfer á við fortíðina. „Upp komu augnablik sem minntu mig á gamlar myndir á borð við Sabrinu, eins og þegar [Humphrey] Bogart stingur ólífunni upp í frænda sinn og segir: „Éttu þetta!“ Ég var nýbúinn að sjá það atriði, veltist um úr hlátri og hugsaði með mér: Þessi persóna gæti verið eins konar pönkútgáfa af honum og troðið rottunni upp í Pitfull [sem er persóna í The Surfer] og sagt: „Éttu þetta!“ Sem betur fer var ég að vinna með fólki sem er opið að upplagi og tilbúið að prófa alls konar hluti.“
Já, já, það er bara stigs- en ekki eðlismunur á ólífu og rottu.
Cage lýkur lofsorði á leikstjórann og aðra aðstandendur myndarinnar í viðtalinu. „Lorcan er ótrúlegur húmoristi og leitun er að betri hópi meðleikenda. Julian [McMahon] og Nick [Cassimi] eru frábærir leikarar. En líka bara æðislegir gaurar í umgengni. Þannig að samvinnan, bæði með leikurunum og öðrum í teyminu, skóp umhverfi þar sem ég var frjáls og gat þreifað fyrir mér og tjáð mig.“
Leikarinn notar orð eins og ólínuleg, dulræn, sýrukennd og súrrealísk til að lýsa myndinni og ber The Surfer að þessu leyti saman við Wild at Heart, hina goðsagnakenndu mynd Davids heitins Lynch, þar sem hann lék sjálfur aðalhlutverkið. „Lorcan er hvergi banginn við að vera súrrealískur. Það er hans einstaki stíll sem gerir þessa mynd í senn hryllilega og drepfyndna.“
Cage lítur svo á að hans hlutverk hafi verið að bjóða áhorfendum upp í ferðalag, eins konar óvissuferð, með persónu sem í blábyrjun virkar ekki á neinn hátt óvenjuleg eða frábrugðin norminu í samfélagi okkar mannanna. „Eina leiðin, að mínu viti, var að láta persónuna smám saman liðast í sundur og verða eitthvað allt annað en það sem hann var þegar við hittum hann fyrir í upphafi. Þetta er eins og að flysja lauk. Hvert lagið birtist af öðru. Ó, hann fór skólaus í vinnuna. Ó, konan hans er að gifta sig upp á nýtt og á von á barni. Og bíðum nú við, bíllinn hans er horfinn, líka armbandsúrið hans og jafnvel sonur hans. Það fjarar hægt og bítandi undan honum. Hamistu nógu lengi á einhverjum, karli eða konu, þá muntu á endanum koma að hellisbúanum í honum. Þessi kvikmynd færir okkur heim sanninn um það.“
Cage viðurkennir að The Surfer kallist á við ýmsar persónur sem hann hefur leikið gegnum tíðina en hér sé hann þó í algjörlega nýjum aðstæðum, andspænis ættbálkamenningu, lókalisma og ósviknu bræðralagi sem einkennist af eitraðri karlmennsku. „Sem er, viðurkennum það bara, úti um allt nú um stundir. Og ég held að fólk sé almennt mjög mikið að velta þessu fyrir sér. Í því ljósi er myndin orð í tíma töluð og kallast á við angistina sem ýmsir finna fyrir. Viðhorfið er einfalt: Þú fylgir okkur eða drullar þér í burtu. Eða: Þú gerir eins og þér er sagt.“
Menn hafa þegar túlkað The Surfer á ýmsa vegu, eins og gengur, og Cage lítur á það sem styrk að upplifun eins áhorfanda geti verið frábrugðin upplifun annars.
Spurður í Nerdist hvernig hann sjálfur túlki myndina verst hann af fimi enda fari langbest á því að áhorfendur myndi sér sínar eigin skoðanir. Eigi sitt persónulega samband við listaverkið.
Írinn Lorcan Finnegan er þekktastur fyrir að hafa leikstýrt kvikmyndinni Vivarium árið 2019 sem vann til verðlauna á Cannes-hátíðinni. Hún er skilgreind sem súrrealísk vísindaskáldskaparhrollvekja. Hvorki meira né minna. Meðal leikenda voru Imogen Potts og Jesse Eisenberg. The Surfer er hans fjórða mynd, sú fyrsta var frumsýnd 2016, Without Name, sem einnig er hrollvekja. Fjórða myndin, Nocebo frá 2022, er sálfræðitryllir.
Finnegan er menntaður grafískur hönnuður frá Dublin og hóf störf sem slíkur í Lundúnum að námi loknu. Fyrsta aðkoma hans að kvikmyndagerð var sem hönnuður, klippari og loks leikstjóri við sjónvarpsmyndaflokkinn Black Mirror sem runninn er undan rifjum Charlies Bookers. Síðan leikstýrði hann auglýsingum, tónlistarmyndböndum og stuttmyndum áður en hann sneri sér að myndum í fullri lengd.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.