Réttarhöldin yfir tónlistarmanninum Sean „Diddy“ Combs hófust formlega í dómssal í New York í Bandaríkjunum í dag. Talsverð röð hafði myndast fyrir utan dómstólinn í morgun áður en réttarhöldin hófust.
Combs, sem iðulega er þekktur undir listamannanafninu P. Diddy er ákærður fyrir kynferðisbrot, svo sem mansal, mannrán og að byrla og þvinga konur til kynlífs. Einnig er hann ákærður fyrir hótanir með skotvopnum eða ofbeldi. Þetta kemur fram í umfjöllun BBC.
Fyrir viku síðan hófust réttarhöldin með vali á kviðdóm. Dómari málsins er Arun Subramanian og lauk valinu í dag með kviðdóm sem samanstendur af átta körlum og fjórum konum.
Við val á kviðdómi var gengið úr skugga um að allir sem í honum sitja væru hlutlausir í málinu. Ef saksóknara eða verjenda fannst sem möguleiki væri á að kviðdómendur væri hlutdrægir var þeim vísað frá.
Lokavali á tólf manna kviðdómi og sex varamönnum var skilað um klukkan tvö í dag og voru þau svarin til embættis rétt fyrir þrjú.
Sá sem leiðir vörn Combs er Marc Agnifilo, lögfræðingur sem hefur áður tekið að sér mál sem vekja mikla athygli. Má þar til dæmis nefna Luigi Mangione sem ákærður hefur verið fyrir morðið á Brian Thompson forstjóra stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna.
Ásamt honum eru sex aðrir lögfræðingar í verjendahópnum.
Saksóknarinn Emily A. Johnson var fyrst upp í pontu í dag. Þar lýsti hún því hvernig Combs hafi í rúm 20 ár rekið glæpastarfsemi með hjálp lífvarða sinna og starfsmanna.
Einnig minntist hún á Cassie Ventura, fyrrum maka Combs, en talið er að hún verði oft nefnd í þessu máli þar sem hann er ásakaður um að hafa beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi ásamt því að hafa kúgað hana.
Myndskeið af líkamsárás Diddy á Cassie er talið líklegt að verði spilað seinna í réttarhöldunum og það oftar en einu sinni.
Lögfræðiteymi Diddy hóf opnunarræðu sína eftir að saksóknari lauk máli sínu í kringum hálf fjögur í dag. Teny Geragos, ein af verjendum Combs fór með opnunarræðuna.
Þar játaði hún að hegðun hans gæti flokkast undir heimilisofbeldi en að hún flokkist ekki undir mansal né skipulagða glæpastarfsemi.
Minntist hún einnig á partíin sem Combs er sagður hafa haldið og sagði að allt sem hafi átt sér stað þar hefði verið með samþykki.
Þetta var síðasta ræðan áður en dómsstólinn tók hlé.