Norðurlandapartí Eurovision var haldið með pompi og prakt í EuroClub-höllinni við Messe Basel um helgina.
Þar fluttu Norðurlöndin lög sín í keppninni og kynntust betur áður en keppnin hefst í St. Jakobshall í vikunni. Á þriðjudaginn fer fram fyrra undanúrslitakvöldið. Þá ríður Ísland fyrst allra landa á vaðið en alls 15 lög keppa það kvöld um sæti í úrslitunum 17. maí. Bræðurnir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð, sem mynda tvíeykið VÆB, keppa fyrir hönd Íslands.
Við náðum tali af bræðrunum í miðju Norðurlandapartíinu og aðspurðir um það hvernig keppnin leggst í þá bræður segja þeir ævintýrið ganga vel: „Þetta er allt saman according to plan.“
Bræðurnir viðurkenna að þeir hafi farið inn í Eurovision-ævintýrið án mikilla væntinga:
„Ég veit ekki alveg við hverju maður var að búast. Maður var ekki með neinar væntingar. Við fórum inn í þetta blindandi, þetta er bara fullkomið.“
Dagarnir í Basel hafa nú þegar fært þeim nýja vini og minningar til lífstíðar.
„Hvar eigum við að byrja? Albanía er alltaf toppurinn hjá okkur. Ég elska Albaníu ekkert eðlilega mikið. Það er svona 50 ára gamall gaur – algjört legend. Írarnir frábærir en Emmy frá Írlandi er ótrúlega skemmtileg.“
Ef þeir mættu, að gamni, skipta um lag og atriði í keppninni, væri valið einfalt:
„Svíþjóð er með ekkert eðlilega nett atriði, segjum bara Svíþjóð, ég held að það sé lokaniðurstaðan. Nettir gaurar með nett lag og nett atriði.“
Mikilvægasta hefð bræðranna fyrir hvern flutning er einföld:
„Þegar hópurinn kemur saman og allir horfa í augun á hver öðrum. Tengjast. We are in this together. Það eru allir með in-ear þannig það heyrir enginn neitt en bara augnsamband og connection síðustu mínúturnar fyrir stóra sviðið. Allir saman í þessu.“
Við hjá mbl.is fylgjumst áfram með undirbúningi íslenska hópsins og færum lesendum beinar fréttir frá Basel næstu daga.